fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Fréttir

Krafði leigjandann um himinháa upphæð eftir aðeins fimm mánaða leigutíma – Lagði engar sannanir fram

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 18. ágúst 2025 20:44

Kærunefnd húsamála heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Mynd: Stjórnarráð Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur hafnað öllum kröfum leigusala sem krafði fyrrum leigjanda sinn, sem leigði íbúð í hans eigu frá mars og fram í ágúst á síðasta ári, um upphæð sem nam hátt í 1,2 milljóna króna. Vildi leigusalinn meina að íbúðin hafi verið illa þrifin af leigjandanum og ráðast hafi þurft í að mála hana og framkvæma ýmsar viðgerðir vegna umgengi leigjandans. Leigjandinn neitaði því hins vegar alfarið að hann hafi skilið við íbúðina í mun verra ástandi en hún var þegar hann tók við henni en leigusalinn lagði ekki fram neinar sannanir um að það væri ekki rétt.

Nefndin úrskurðaði í málinu fyrir um sjö vikum en úrskurðurinn var ekki gerður opinber fyrr en í þessum mánuði.

Leigusalinn sagði í sinni kæru að leigjandinn hafi engar athugasemdir gert við ástand íbúðarinnar við upphaf leigutíma. Hélt hann því fram að íbúðin hefði ekki verið þrigin en samkvæmt leigusamningnum hafi átt að skila íbúðinni hreinni í hólf og gólf.

Krafðist hann einnig greiðslu vegna málningarvinnu, en sparsl hafi verið sett í naglagöt og yfir tappa sem hafi staðið út úr veggjum. Samkvæmt leigusamningi hafi átt að skila íbúðinni málaðri.

Viðgerðir

Vildi leigusalinn sömuleiðis meina það hafi þurft að lagfæra þröskuld á hurð út í garð, skipta um ónýtan hurðarhún og pumpu á svalahurð. Bæði hafi þurft að skipta um tvo hurðarhúna á innihurð, þar sem umgjörð þeirra hafi vantað, og tvær brotnar lamir hafi verið í eldhússkáp.

Þá hafi greinilega verið illa loftað úr íbúðinni og mikill raki verið innandyra í langan tíma. Það hafi valdið skemmdum á öllu tréverki þar sem raki hafi meðal annars komist í trérimlagardínur og þá hafi gluggakista í stofu verið bólgin á nokkrum stöðum. Skápar á baðherbergi hafi verið ónýtir og þurft hafi að henda þeim og eldhúsinnrétting verið bólgin.

Rúða í stofu hafi einnig verið brotin að innanverðu. Þá hafi tapaðar leigutekjur numið einum mánuði vegna standsetningar á íbúðinni, enda hafi ekki verið hægt að leigja hana þegar leigjandinn skilaði henni.

Þreif víst

Leigjandinn hafi hins vegar töluvert aðra sögu að segja af viðskilnaði sínum við íbúðina. Hann hafi eytt mörgum dögum ásamt móður sinni í þrif á íbúðinni fyrir skil. Allir skápar hafi verið hreinir og gólf verið skúrað. Gluggatjöldin hafi ekki verið þrifin en skipt hafi verið um glugga í svefnherbergi og stofu og á meðan það hafi verið gert hafi verktakar skilið íbúðina eftir gluggalausa yfir heila helgi. Óhreinindi á gluggatjöldum hafi því ekki verið á  hans ábyrgð.

Leigjandinn sagði verktaka hafa mælt með því við leigusalann að mála íbúðina í öðrum lit til að auka líkur á að hægt væri að selja hana. Málning í eldhúsi hafi verið ónýt, lekið hafi í eldhúsinu fyrir upphaf leigutíma og öll málning verið bólgin á vegg milli eldhúss og baðherbergis, sama með baðherbergi en þar hafi verið gömul rakaskemmd og bólgin málning og einnig í svefnherbergi. Leigusalinn hafi verið upplýstur um allt þetta á leigutíma. Leigjandinn sagði það ósanngjarnt að krefjast þess að hann greiddi fyrir málninguna þegar miklar rakaskemmdir hafi verið til staðar og málningin illa farin og bólgin.

Hvað varðar kröfu leigusalans vegna ástands tréverks í íbúðinni vísaði leigjandinn til þess að í íbúðinni hafi verið 35 ára gömul innrétting sem hafi verið komin til ára sinna og illa haldið við. Gluggakista í stofu hafi verið bólgin þar sem allir gluggar íbúðarinnar hafi lekið, sem sé ástæða þess að skipt hafi verið um þá. Um væri að ræða þörf á venjulegu viðhaldi íbúðar sem hafi ekki verið hugsað um í áratugi.

Ekki skilið eftir opið

Leigusalinn vísaði á bug flestum andsvörum leigjandans og neitaði meðal annars því að verktakar hafi skilið íbúðina eftir gluggalausa í heila helgi. Rakaskemmdir hafi ekki verið til staðar við upphaf leigutímans en komið hafi í ljós leki frá salerniskassa sem hafi valdið rakaskemmdum í vegg en um þennan leka hafi leigjandinn ekki upplýst. Það hafi verið rangt að gluggar hafi lekið.

Leigjandinn benti á í viðbótarathugasemd að leigusalinn hafði sagt honum að rakaskemmdir væru í íbúðinni vegna utanaðkomandi leka. Staðreyndin væri sú að vegna steypuskemmda læki öll austurhlið hússins og það væri galið að krefja hann um greiðslu vegna viðgerðar af völdum leka sem hann bæri enga ábyrgð á. Minnti hann að lokum nefndina á að leigusalinn hefði ekki lagt fram neinar myndir eða önnur gögn til að sanna fullyrðingar sínar um að ástand íbúðarinnar hafi verið mjög gott þegar leigjandinn flutti inn.

Engar sannanir

Þessi skortur á sönnunum reyndist skipta tölvuverðu þegar kom að niðurstöðu í málinu. Kærunefnd húsamála segir í sinni niðurstöðu að gögn málsins sýni að leigusalinn hafi ekki vísað málinu til nefndarinnar innan tilskilins frests eftir að leigjandinn hafi með skýrum hætti hafnað allri bótaskyldu. Hann hafi gert það tveimur mánuðum of seint.

Nefndin segir einnig ljóst að ekki hafi verið gerð sameiginleg úttekt málsaðila á ástandi íbúðarinnar við upphaf leigutíma og lok hans eins og kveðið sé um í húsaleigulögum og leigusamningi milli aðila. Leigusalinn hafi heldur ekki lagt fram neinar myndir eða önnur gögn um ástand íbúðarinnar við upphaf leigutímans. Það sé heldur ekkert sem styðji við kröfu hans um leigubætur vegna tafa á að hægt væri að selja íbúðina eða leigja hana aftur út eftir að leigjandinn flutti út.

Kröfum leigusalans var því alfarið hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““

Íris ber saman þá sem eru blankir og þá sem eiga peninga líkt og Haraldur og Bjarni Ben – „Að eiga peninga er ekki „impressive““
Fréttir
Í gær

Maður sem hagaði sér undarlega í sundi handtekinn

Maður sem hagaði sér undarlega í sundi handtekinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“