Ágreiningur um rekstur tjaldsvæðis á Egilsstöðum var tekin fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigandi húsnæðis að Skjólvangi 2, þar sem Skatturinn er til húsa, kærði ákvörðun sveitarstjóra, sem hafði synjað beiðni húseigandans um að stöðva rekstur tjaldsvæðis á nærliggjandi lóðum.
Húseigandinn sendi tölvupóst í byrjun júlí til sveitarstjórnar þar sem hann óskaði eftir að rekstri tjaldsvæðis fyrir framan fasteign hans yrði hætt þar sem reksturinn væri ekki í samræmi við skipulag.
Fékk hann það svar frá sveitarstjóra að nokun svæðisins sem tjaldsvæðið væri hefði verið heimiluð tímabundið þar til uppbygging íbúðarhúsnæðis hæfist samkvæmt skipulagi. Sveitarfélagið hefði gert samning við rekstraraðila um afnot af svæðinu þegar aðaltjaldsvæðið væri fullt sem og í tengslum við unglingalandsmót sem halda ætti um sumarið.
Eigandi húsnæðisins óskaði þá eftir upplýsingum um hvaða heimildir sveitarfélagið hefði til að leyfa starfsemi sem væri ekki í samræmi við skipulag og fór jafnframt fram á að fá afhentan leigusamning sveitarfélagsins við rekstraraðila tjaldsvæðisins vegna afnota svæðisins. Ítrekaði hann kröfu sína um að umræddu tjaldsvæði yrði lokað þar sem það ylli leigjendum hans ónæði og tjóni á húseign.
Var beiðni hans synjað með tölvupósti sveitarstjóra þar sem fram kom að leyfisveiting til nýtingar svæðisins byggði á ákvörðun sem tekin hefði verið af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á sínum tíma og hefði verið endurnýjuð árlega með þeim fyrirvara að um tímabundna heimild væri að ræða.
Tímabundna tjaldsvæðið er á grænu lóðunum vinstra megin við hlið hús Skattsins og fyrir framan það á þessari mynd. Mynd: Skjáskot ja.is.
Eigandi húsnæðisins kærði til úrskurðarnefndarinnar og sagði rekstur tjaldsvæðisins ekki í samræmi við gildandi skipulag og að áframhaldandi starfsemi geti valdið kæranda og öðrum hagsmunaaðilum verulegu og óafturkræfu tjóni, meðal annars vegna ónæðis, röskunar á lögvörðum hagsmunum og mögulegrar röskunar á réttarstöðu aðila. Með vísan til meðalhófs og réttaröryggis væri brýnt að stöðvun yrði ákveðin þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í málinu.
Sveitarfélagið sagði tjaldsvæðið rekið á umræddu svæði og hafi sama nýting átt sér stað undanfarandi sumur. Engar framkvæmdir séu ráðgerðar á svæðinu sem hafi að mestu verið útbúið sem tjaldsvæði áður.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sagði í úrskurði sínum að samkvæmt lögum yrðu að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Húseigandi/kærandi gerði kröfu um stöðvun reksturs tjaldsvæðis á lóðunum Sólvangi 2 og Kaupvangi 10 og 20, en fyrir liggur að síðustu sumur hefur verið starfrækt tjaldsvæði á umræddum lóðum og er með hinni kærðu ákvörðun ekki verið að heimila nýja eða breytta starfsemi. Nefndin taldi því ekki knýjandi þörf á að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og beðið frekari gagna.
Mun tjaldsvæðið því vera rekið áfram meðan úrskurðarnefndin skoðar málið og kveður upp lokaúrskurð.