Anna Laufey Stefánsdóttir, móðir og tölvunarfræðingur hjá Stafrænni vegferð, varar við áhrifum samfélagsmiðla og stöðugrar skjánotkunar á börn, fjölskyldutengsl og andlega heilsu og hvetur til þess að fólk setji sér einfaldar reglur um notkun til að skapa betra jafnvægi.
Í athyglisverðri grein sem birtist á vef Vísis í morgun dregur Anna Laufey ekki fjöður yfir það að tæknin í dag sé ótrúleg og tengi okkur við vini og fjölskyldu, auk þess að hjálpa okkur við dagleg störf og bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu. En valdi fylgir ábyrgð.
„Mikið af þeirri tækni sem við notum daglega – samfélagsmiðlar, leikir, forrit og öpp – er hönnuð með eitt markmið: að grípa athyglina okkar og halda henni eins lengi og hægt er. Ekki endilega til að fræða okkur, styrkja sambönd eða styðja við velferð, heldur til að hámarka gróða.“
Anna bendir á að tækniheimurinn hafi áhrif á börn okkar, hugsanir, sjálfsmynd, lýðheilsu og lýðræði.
„Við sjáum hvernig samfélagsmiðlar mata okkur af efni sem eykur óöryggi, ýtir undir samanburð, einangrun og vanlíðan. Við finnum hvernig skjárinn kallar, truflar, tæmir orku, sviptir nærveru og rýfur tengslin við okkur sjálf og aðra. Við sjáum börnin okkar stara stjörf á skjáinn, skrolla endalaust, á meðan þau missa af samskiptum, útiveru, ævintýrum… missa af lífinu sjálfu,“ segir hún í grein sinni.
Anna segir að stundum þurfum við að taka tæknina úr sambandi og leggja símann frá okkur, velja raunveruleg samtöl fram yfir skjásamskipti. En hvernig er best að finna þetta jafnvægi?
Anna Laufey segir að gott sé að setjast niður saman sem fjölskylda og ákveða reglur um skjánotkun. Hvenær sé gott að nota tæknina og hvenær gott sé að vera án hennar. Bendir hún á að mikilvægt sé að hafa nokkur atriði í huga og setja jafnar reglur um börn og foreldra, þá sé gott að skrifa reglurnar niður og hafa þær sýnilegar á heimilinu. Loks sé gott að halda reglunum fáum, einföldum og raunhæfum.
Anna talar af reynslu og þekkingu og birtir hún til dæmis þær reglur sem eru í gildi á hennar heimili.
Grein sína endar Anna Laufey svo á þessum orðum:
„Með þessum reglum höfum við nánast hætt að rífast um skjátíma á mínu heimili og fundið mun betra stafrænt jafnvægi. Við eigum að nota tæknina þegar hún styður okkur.
Við eigum líka að hafna henni þegar hún skaðar okkur. Við eigum að nota tæknina. Tæknin á ekki að nota okkur.“