fbpx
Sunnudagur 10.ágúst 2025
Fréttir

Íris segir erfitt að losna við blankheitahugsun og byrja að spara: „Peningurinn rennur ekkert út, hann myglar ekkert, hann verður þarna og þú getur bara geymt hann“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 10. ágúst 2025 10:30

Mynd: Unsplash.com.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íris Alma Vilbergsdóttir ræðir í hlaðvarpi sínu, Krónusögurnar mínar; sannar sögur úr veskinu, um fjármál, basl og bata. DV hefur áður fjallað um námslán sem Íris tók fyrir BA-námi og síðan fyrir mastersnámi í Skotlandi. Fyrra lánið var gefið út árið 2006, upphaflega 3.172.363 kr. Og seinna lánið árið 2011, upphaflega 5.762.870 kr. Íris er ekki byrjuð að borga af seinna láninu, en er búin að greiða af fyrra láninu í 17 ár, samtals 3.829.644 kr.

Sjá einnig: Íris hefur greitt af námsláni í 17 ár – Lánið er 800 þúsund hærra í dag: „Námslánið kæfir þig“

Sjá einnig: Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“

„Þetta er mitt lán og þetta verður alla ævi. Þetta mun ég aldrei greiða niður, ef ég myndi fá einhvern lottóvinning sem gerði mér kleift að greiða niður þessar tæplega fjórar milljónir sem að ég skulda í ba-lánið að þá á ég eftir rúmlega ellefu og hálfa milljón í mastersláninu. Þannig að þetta er bara lífið, út lífið þá verð ég alltaf borgandi LÍN og það mun aldrei lækka, það mun bara hækka.“

Íris ítrekar því skilaboð sín um að þeir sem þurfi og ætli sér að taka námslán hugsi sig vel um og taki eins lítið lán eins og viðkomandi ræður við og borgi upp eins hratt og viðkomandi getur. Íris segist borga um 30 þúsund kr. mánaðarlega í námslánið og ekki hugsa of mikið um hver heildarskuldin sé. En nú þegar hún hefur reiknað þetta saman þá sé hún frekar leið yfir þessu og ætli að reyna að færa þetta í geymslu í höfðinu til að hugsa ekki um þetta daglega.

„LÍN eða Menntasjóður námsmanna eins og hann heitir í dag. Bara eruð þið að grínast? Eruð þið að grínast í mér? Hvurslags eiginlega mafíósa bara klikkaða lánastarfsemi er þetta sem er í gangi hjá ykkur. Bara ykkur getur ekki verið alvara.“

Íris Alma Valgeirsdóttir. Mynd: Aðsend.

Hvernig tileinkar maður sér sparnaðarhugsun?

Í þriðja þætti hlaðvarpsins ræðir Íris um sparnað og hversu erfitt það getur verið að tileinka sér sparnaðarhegðun þegar það að eiga pening er nýtt og framandi.

„Því miður þá er ég ekki að koma með sparnaðarráð vegna þess að vandamálið er að ég er ekki góð í að spara. Ég var blönk þegar ég var krakki, ég hafði nóg í mig og á en ekki pening til að sóa. Og þegar ég varð mamma nítján ára og var bara láglaunamanneskja og og hafði engan stuðning átti ég aldrei pening.“

Íris segist hafa leigt með móður sinni, ekki eignast bíll fyrr en hún varð 27 ára og jafnan hafi verið listi yfir það sem vantaði.

„Þannig að allur peningur, hver einasta króna, var úthlutað af því að það var aldrei nógu mikill peningur. Og það sem gerist þá er að þá lærirðu ekki að spara. Þú lærir að spara að því leyti að þú lærir að eyða litlu í hluti, þú lærir kannski að versla í Rauða krossinum eða labba í staðinn fyrir að taka strætó eða eitthvað svoleiðis en það er öðruvísi sparnaður. Sparnaðurinn sem ég er að tala um er að taka pening og leggja fyrir, geyma hann á öðrum reikningi og nota hann ekki. Þegar þú hefur aldrei átt pening til þess að leggja til hliðar þá er alveg rosalega erfitt að byrja á fullorðinsárum að verða allt í einu manneskjan sem átt auka pening og leggur hann til hliðar og notar hann ekki. Þannig að það sem gerist er að hægt og rólega þú veist, árin líða og og þá byrjar aðeins að verða rýmra. Ég get borgað alla reikningana ekkert mál og ég get borgað mat, þannig að maturinn hættir kannski að vera allra ódýrasta útgáfan og verður svona venjulegur matur og þá ertu að eyða meira í það.“

Mynd: Unsplash.com.

Blankheit og fátækt ekki það sama

Íris segist enn þá vera blönk, en skilja á milli þess að vera fátæk og vera blönk. „Blönk er manneskja sem hefur það sem hún þarf, húsnæði, fatnað og mat. Húsnæði er kannski lélegt, maturinn er kannski ekkert rosalega góður, en hún er aldrei svöng og hún hefur alltaf einhvern stað að sofa. Fátækt er miklu miklu alvarlegra og eitthvað sem ég hef ekki upplifað að því leyti af því að ég hef verið heimilislaus tæknilega séð, en þá bara bjó ég hjá mömmu kannski í hálft ár eða eitt ár. Og vissulega hafði ég kannski ekki efni á leigu þannig að þess vegna var ég hjá mömmu, en ég var ekki heimilislausari en svo að ég gat verið hjá mömmu. Þannig að það er svona það er þessi skilgreiningarmunur á fátækt og blankheitum. Mamma bjó mjög vel þannig að það var ekki eins og ég væri að flytja til hennar í hreysi og við værum að deila saman einhverju hreysi.“

Íris segist seinna hafa komist á það stig að geta keypt sé hluti bara af því henni langaði í þá, og það þurfti engin ástæða að vera fyrir kaupunum.

„Ég er ekki vön að lifa vel vegna þess að það er eitthvað sem ég hef aldrei gert, ég fer ekki að kaupa mér til dæmis húsgögn eða nýrri bíl eða neitt svoleiðis vegna þess að hlutirnir hafa aldrei verið neitt sérstaklega fancy í kringum mig. Það sem gerist þegar þú ert ekki lengur með þennan lista yfir nauðsynjar sem þú ert að bíða eftir að hafa efni á að kaupa þá byrjar listinn að vera yfir hluti sem þú þarft ekki en það væri gott að eiga. Þannig byrjaði ég fyrir svona 8-10 árum að kaupa hluti sem væri næs að eiga, hrísgrjónapott og samlokugrill. Og þarna byrjar vesen hjá mér vegna þess að þegar þú byrjar að versla hluti sem er næs að eiga en þú þarft ekki og ert ennþá ekki byrjuð að leggja fyrir, að þá eyðir þú alltaf öllum peningnum.“

Ginnkeypt fyrir öllum heilsuvörum

Íris segist ekki vera með lán fyrir utan námslánin, ekki með heimild á bankareikningi eða slíkt. Hún hins vegar eyði öllum laununum sínum. Síðan fær hún laun greidd, eyðir þeim og svona gengur þetta koll af kolli mánaðarlega.

„Og ef það kemur inn einhver greiðsla, þú seldir eitthvað eða arfur, að þá kemur þessi tilfinning að peningurinn muni fara. Þú getur ekki bara átt pening í einhvern tíma. Hann hefur alltaf farið af því það er alltaf að koma eitthvað upp. Þannig að þá færðu þessa sömu tilfinningu eins og þú kaupir mat sem er að renna út. Hvað gæti mögulega verið gott að kaupa eða eiga vegna þess að núna á ég pening þannig að núna get ég gert þetta. Og þá byrjar vitleysan.“

Íris er með vefjagigt og segist vera rosalega ginnkeypt fyrir öllum heilsuvörum sem eiga að láta henni líða betur. Hún á sánateppi og sogæðanuddtæki, sem kostuðu um 100 þúsund kr. hvort. Einnig á hún pall til að nota fyrir líkamsrækt, sem kostaði um 50 þúsund kr., en hann virkar ekki eins og annar sem Íris hafði prófað þannig að hún notar hann aldrei.

„Hvaðan kemur þessi þörf fyrir að eyða þessum peningum? Og ertu viss um að þú myndir ekki bara vilja leggja fyrir og eiga þá kannski í staðinn fyrir að eiga tæki að eiga 200 hundruð þúsund í banka? Það tekur svo langan tíma að uppgötva að þú ert með þessa hugsunarvillu. Ég er búin að átta mig á því núna. Ég er búin að sóa öllum peningunum mínum hingað til. Á meðan á þessu stendur þá upplifir þú þetta ekki sem sóun. Það er þessi pæling að peningurinn hann gufar upp og ef ég nota hann ekki núna að þá fer hann bara í eitthvað annað. En auðvitað gerist það ekki neitt, hann fer ekki neitt ef þú eyðir honum ekki.“

Mynd: Unsplash.com.

Erfitt að losna við blankheitahugsun

Íris er byrjuð í hlutastarfi og er að segja sitt eigið fyrirtæki í gang. Segist hún þannig eiga smá pening til að grípa til og segist sífellt þurfa að minna sig á að um er að ræða neyðarsjóð.

„Þetta er þessi blankheita hugsun sem að þegar þú hefur alltaf verið blankur og svo allt í einu ertu minna blankur eða jafnvel ekki. Ég er ekki blönk, en ég get heldur ekki leyft mér að gera róttækar breytingar á lífinu mínu. Ég held mig bara innan ákveðins ramma og þessi rammi er miklu betri heldur en það sem að ég hef áður upplifað.

Ég er mjög hrædd við að taka lán, þannig að það kemur ekkert til greina. Staðreyndin er sú að ég á allt sem ég þarf, samkvæmt mínum standard. En ég er ekki laus við þá hugsun að ef peningurinn er til, þá eyðir maður honum. Þú veist, bara kaupum okkur eitthvað, gerum eitthvað. Ef kemur auka fimm þúsund kall inn einhverra hluta vegna, að fara bara til útlanda eða eitthvað svoleiðis. Þetta er stórfurðulegur hugsunarháttur og þetta er eins og með megrunaráráttuna sem við erum öll, allavegana á mínum aldri, haldin, að vera að hugsa um matarmál og hvernig við lítum út.“
Íris segir að erfitt sé að aflæra þessa hugsun þegar kemur að peningum og jafnvel sé það ekki hægt.

„Ég held að ég muni ekki endilega aflæra þessar hugsanir að peningur er hérna til þess að eyða honum. Ég er náttúrlega mjög fegin með það að ég er ekki með kaupfíkn því ég fer ekki og kaupi meira heldur en ég á efni á að kaupa. Þetta er bara spurning um að vera sátt með það sem ég á og að peningur sé eitthvað sem hægt er að geyma og það þarf ekki að nota hann. Og peningurinn rennur ekkert út, hann myglar ekkert, hann verður þarna og þú getur bara geymt hann.

Hinn vinkillinn er að það eru mjög margir sem að eru alveg gríðarlega sparnaðarsöm, svo sparsöm að þau geta ekki notið neins í lífinu vegna þess að það á alltaf að gera það seinna. Ég er ekki á því að það sé neitt betra. Ég get ekki séð að það að geta ekki leyft sér stundum að fara út að borða eða geta ekki leyft sér að eiga heil föt eða neitt vegna þess að þú ert svo ofboðslega upptekinn við að spara hverja einustu krónu. Það er bara annað vandamál.

Þetta kemur alltaf af einhverri þörf sem kemur af neikvæðum stað í okkur. Þannig að ótti við að eyða peningum, ótti við að lifa vegna þess að þú ætlar að lifa seinna? Núna ætlarðu að spara? Það er ekkert skárra heldur en nú ætla ég að lifa öllu lífinu í dag. Þetta er bara sitt hvor pólinn og hvoru tveggja neikvætt. Maður á að vera skynsamur með peningana, ekki kaupa það sem þú þarft ekki og ekki eyða peningum bara til þess að eyða peningum. Spara þá peninga sem þú getur. Þú veist ekkert hversu lengi þú færð að lifa. Þannig að lífið er núna og þú þarft að lifa. Þú þarft að skipuleggja framtíðina og vera skynsamur varðandi framtíðina og leggja fyrir og allt það. En ekki lifa í vesæld vegna þess að þú ætlar að gera svo vel seinna. Af því að hvenær kemur þetta seinna? Hvenær ætlarðu að byrja að lifa? Og þar að auki þú ert aldrei of ungur til þess að lífið endi. Og þá verður lítil huggun í því að já, ef þú hefðir lifað til fimmtugs að þá hefðirðu átt rosalega mikið af peningum og hefðir getað keypt þér snekkju.

Lífið allt þarf að vera innan skynsamlegra marka og öfgarnar í hvora áttina sem er, hvort sem það er í næringu eða hreyfingu eða peningamálum eða hverju öðru. Að gera of mikið af því góða það leiðir aldrei til góðs og það á við um ofursparnað.

Ég vona innilega að ég muni lagast og muni vera duglegri að að leggja fyrir mánaðarlega og ekki eyða öllum peningnum sem ég fæ. Núna er ég á lægri launum og kannski ekki tími til að byrja að spara eitthvað voðalega mikið. Ég get borgað alla reikninga mína og ég get keypt mér að borða. Ég hef nógan pening til þess að lifa. Og vonandi að þá mun þetta leiða til þess að ég get byrjað að vinna fulla vinnu í mínu fyrirtæki. Kannski eftir eitt ár þá er ég komin í fulla vinnu einhvers staðar annars staðar vegna þess að þetta gekk ekki neitt.“

Hlusta má á þriðja þáttinn í hlaðvarpi Írisar Ölmu hér:

Íris Alma er eigandi ÍA fjármál og einnig má fylgja henni á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá
Fréttir
Í gær

Kona sökuð um langvarandi ofbeldi gegn aldraðri móður sinni

Kona sökuð um langvarandi ofbeldi gegn aldraðri móður sinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hildur hefur verulegar áhyggjur af framtíðinni – „Eftir hverju erum við að bíða?“

Hildur hefur verulegar áhyggjur af framtíðinni – „Eftir hverju erum við að bíða?“