Gunnar Þorsteinsson, fyrrum forstöðumaður trúfélagsins Krossins segir engum hollt að bera hatur í hjarta sér til annars manns. Þannig hafi hann sjálfur tekið ákvörðun um að fyrirgefa manninum sem drap móður hans, Sigurbjörgu Einarsdóttur, þann 3. desember 1999. Sigurbjörg var áttræð þegar hún lést.
„Það var óhuggulegt, svakalegt áfall. En ég tók þá ákvörðun að fyrirgefa þessum unga manni, morðingjanum og móðurmorðingjanum. Því að í hnotskurn er þetta alltaf það sama. Þú átt að fyrirgefa, annars verður þér ekki fyrirgefið og þú fyrirgefur sjálfs þíns vegna. Þannig hreinsarðu huga þinn. Að vera bundinn einhverri hatursbaug við einhvern mann út í bæ, það vil ég ekki. Ég vil vera hreinn. Og það gildir í öllum greinum, smáu og stóru.“
Í Spjallið með Frosta Logasyni segir Gunnar manninn hafa mætt nokkrum árum seinna á samkomu og sest í miðjan salinn. Gunnar hafi séð hann og ávarpað hann og spurt hvort hann mætti segja frá hver maðurinn væri. Maðurinn játaði því.
„Og ég bara kynni hann fyrir söfnuðinum og við biðjum fyrir honum. En auðvitað er þetta átakanlegt, alveg svakalega. En það er þetta að halda hjarta sínu hreinu, vera ekki með þessar kenndir, haturshug,“ segir Gunnar sem segir okkur öll hafa hrasað á lífsleiðinni.
Gunnar rifjar upp að hann var á leið í sjónvarpsviðtal og ætlaði að koma við hjá móður sinni á leiðinni, en hafi svo ekki náð því. Þegar hann kom síðan heim fékk hann símtal.
„Og þá er búið að myrða hana. Í framhaldi fór allt í gang. En það sem var kannski þyngst var að fjölmiðlar töldu sig hafa upplýsingar um að hún hafi verið myrt vegna þess að einhver ætlaði að ná sér niður á mér. Ég bæri ábyrgð á þessu. Svo ég bað fjölmiðla um að sýna mér vægð í viku. Ég myndi halda bara blaðamannafund. Að ég mætti klára að syrgja móður mína og ganga frá því sem þarf að gera. Og ég fékk frið til þess og hélt blaðamannafundinn og þá var búið að finna morðingjann. Og þetta var bara random. Þetta hafði ekkert með mig að gera. Hann átti móður sem bjó í sama húsi. Þetta var mjög vönduð húseign þar sem var gæsla allan daginn. Hún var búin að vera þarna hvað, í eitt eða tvö ár.“
Gunnar segir það hafa verið mjög erfitt ofan á móðurmissinn að fá þau tíðindi að mögulegur hefði þarna verið einhver sem ætlaði að ná sér niður á honum.
„Það voru dimmar hugsanir. Við vorum svo lánsöm í þessu óláni mikla að Geir Jón Þórisson stjórnaði vaktinni þetta kvöld hjá lögreglunni. Hann kemur heim til mín og hann er með okkur bara alla nóttina. Hann er með í sorginni að biðja með okkur og var okkur til halds og trausts og það var afskaplega dýrmætt.
Síðan kemur þessi holskefla og á sama tíma var einhver stirðleiki á milli lögreglunnar og fréttamanna. Þeir voru í einhverri fýlu í garð hvors annars út af einhverju sem hafði gerst. En allavega þá kemur í ljós eftir að hann er handtekinn, hann er þarna bara random. Það er ekkert sem vakti fyrir honum. Vissi ekkert hvaða manneskja þetta var. Hann bankar á hæðinni fyrir ofan, sömu íbúð. Þar er kona, hún er með gesti. Og hann fer niður eina hæð og bankar og þar er kona, engir gestir. Og hann var með hníf.“
Móðir Gunnars var rúmlega áttræð og fór Gunnar til hennar viku og hún eldaði oft handa honum saltfisk og hamsa.
„Og hún var nýbúin að segja mér það að hún teldi ævidaga sína vera næga og væri búin að fá eiginlega alveg nóg. Var orðin þreytt á lífinu. Hún hafði lent í tveimur stórum slysum, var verkjuð og leið oft illa. Hún var nýbúin að segja mér hún væri reiðubúin að fara.“