Elon Musk og bróðir hans Kimbal eru meðal þeirra þekktu einstaklinga sem koma fyrir í skjölum Jeffrey Epstein-málsins að því er Mail on Sunday greinir frá. Fréttin kemur í kjölfar tveggja daga yfirheyrslu á Ghislaine Maxwell, sem nú afplánar 20 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum fyrir að hafa aðstoðað Epstein við mansal og kynferðislega misnotkun stúlkna.
Yfirheyrslan fór fram í alríkisdómshúsinu í Tallahassee í Flórída og er sögð hafa staðið yfir í níu klukkustundir. Þar svaraði Maxwell spurningum frá aðstoðarríkissaksóknaranum Todd Blanche sem og frá fulltrúum FBI og ríkisstjórnarinnar. Hún var spurð ítarlega út í yfir 100 einstaklinga sem tengjast Epstein, þar á meðal Musk-bræðurna Elon og Kimbal, Andrew Prins, Bill Clinton, Bill Gates og fjölda annarra valdamikilla manna úr fjármálalífi Bandaríkjanna og tæknigeiranum.
Samkvæmt heimildum blaðsins naut Maxwell friðhelgi gegn ákæru í skiptum fyrir samvinnu sína við yfirvöld. Þó er sá samningur háður því að hún segi satt og rétt frá.
Sú uppljóstrun að Elon Musk sé í skjölunum þykir æði kaldhæðnislega í ljósi þess að hann hefur farið mikinn vegna málsins í umræðunum á samfélagsmiðlinum X og meðal annars sakað Donald Trump um að hafa komið í veg fyrir birtingu skjalanna vegna þess að forsetinn væri sjálfur þar. Það er þó ekki ljóst hver eðlis tengsl Musk-bræðranna við Epstein voru en ljóst er að Maxwell hefur látið yfirvöldum í té eldfimar upplýsingar.
Donald Trump, sem skipaði Blanche til verksins, hefur lýst því yfir að hann hafi heimild til að náða Maxwell, en segist enn ekki hafa hugleitt slíkt alvarlega. Blanche mun funda með Trump að loknu fimm daga ferðalagi forsetans til Skotlands, þar sem möguleg náðun eða mildun refsingar Maxwell verður tekin til umræðu gegn áframhaldandi samvinnu hennar við rannsókn Epstein-málsins.
Öryggisráðstafanir hafa verið hertar í fangelsinu þar sem Maxwell dvelur, þar sem hún hefur fengið fjölda hótana um líflát, líkt og fleiri sem tengjast málinu. Hafa margir áhyggjur af því að Maxwell hljóti sömu örlög og níðingurinn Epstein sem fannst látinn í fangaklefa sínum í New York árið 2019. Opinber dánarorsök var sjálfvíg en fjölmargir eru sannfærðir um að Epstein hafi verið ráðinn af dögum af valdamiklum aðilum.
Maxwell hyggst í dag leggja fram áfrýjun til Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli sínu. Þegar hún hlaut dóm í málinu á sínum tíma ákvað hún ekki að gefa skýrslu en hún hefur haldið því fram núna að alltaf hafi staðið til að segja sannleikann allan í málinu.