„Ég hef aldrei heyrt eða séð aðrar eins lygar bornar á borð fyrir alþjóð og þingmaðurinn Bergþór Ólason ber fram í þessari Morgunblaðsgrein sem vitnað er í hér, af bæjarstjóranum í Ölfusi,“ sagði Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í Facebook-færslu í gær.
Tilefni skrifanna er sá boðskapur Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, og Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Ölfusi, að þingmenn stjórnarflokkanna hafi fagnað sérstaklega beitingu 71. greinar þingskaparlaga, sem leiddi til þess að bundinn var endi á málþóf um veiðigjaldafrumvarpið. Viðbrögð þeirra beri með sér að það hafi verið fyrirfram ákveðið að beita ákvæðinu.
„Það væri hægt að hafa krúttlegt gaman af myndböndum af sigurhátíð ríkisstjórnarinnar á Petersen-svítunni, þótt kjánahrollur fari vafalaust um marga, ef þetta væri ekki partur af stærri mynd sem nú er að dragast upp hvað skort á myndugleika forystufólksstjórnarinnar varðar,“ segir Bergþór í grein í Morgunblaðinu í gær. Bergþór segir ennfremur í greininni:
„Daginn sem 71. grein þingskapalaga var beitt í fyrsta skipti í tæpa sex áratugi urðu margir áhyggjufullir þegar fréttir bárust af því að fagnaðarlæti stjórnarliða hefðu ómað um þinghúsið. „High five“ virtist gefið á línuna; sungið, hrópað og dansað.“
Segir hann þetta ýta undir þá kenningu að það hafi verið ætlun stjórnarinnar allan tímann að beita 71. greininni. Verði kerfið þá „komið í æfingu“ til að nota greinina seinna, svo sem í málum tengdum Evrópusambandsaðild.
Elliði vitnar í grein Bergþórs og skrifar: „Mikið er það sorglegt að núverandi valdhafar skuli ganga fram af þeim hroka og stærilátum að fylgja beitingu valdboðs með slíku oflæti. Að mæta átökum með því að fagna í andlit andstæðings.“
Hann birtir jafnframt meðfylgjandi gervigreindarmynd af hinum meintu fagnaðarlátum þingmannanna yfir beitingu 71. greinarinnar.
Ástu Lóu ofbýður þessi málflutningur og skrifar:
„Eru minnihlutinn og stuðningsmenn hans gengnir af göflunum?
Það er ekki einu sinni sannleikskorn í þessum orðum um „fögnuð meirihlutans sem ómaði um þinghúsið“ og „High-five“ þegar 71. greininni hafði verið beitt.
Stjórnarliðar voru ekki glaðir yfir því að forseti þingsins hefði neyðst til að beita 71. greininni eftir um 3400 ræður í málþófi minnihlutans, sem ekki sá fyrir endann á. ENGIN gladdist eða „Gaf fimmur“ fyrir það.
Hins vegar hefur minnihlutanum verið tíðrætt um að forseti hafi dagskrárvaldið og forseti gerði nákvæmlega það honum bar að gera, hann tók það aftur af þeim sem virtu það einskis. En það var ekki einföld eða auðveld ákvörðun fyrir hann að gera, það var engin önnur leið, sem er virkilega dapurlegt.
Hvað varðar glaðning þingmanna meirihlutans kvöldið sem þingfundum lauk, þá snerust þau ekki á neinn hátt um beitingu 71. greinarinnar, heldur einfaldlega um að gleðjast saman eftir þingveturinn áður en við tvístruðumst í allar áttir yfir sumarið. Ég held að það sé ekki óalgengt að samstarfsfólk geri sér glaðan dag á e.k. tímamótum.
Það er kannski til marks um hversu langt er seilst í sögusögnum að þessar „fréttir“ birtast fyrst 10 dögum eftir þinglok, með (illa gerðri) AI mynd af fögnuðinn í þingsal.
Hversu lágt er hægt að leggjast?“