Bergþór Ólason kvartar yfir því að þingmenn ríkisstjórnarinnar hafi fagnað eftir að 71. grein þingskapalaga var notuð til að stöðva málþóf stjórnarandstöðunnar í veiðigjaldamálinu. Segir hann að „High-five“ hafi verið gefið á línuna.
„Það væri hægt að hafa krúttlegt gaman af myndböndum af sigurhátíð ríkisstjórnarinnar á Petersen-svítunni, þótt kjánahrollur fari vafalaust um marga, ef þetta væri ekki partur af stærri mynd sem nú er að dragast upp hvað skort á myndugleika forystufólksstjórnarinnar varðar,“ segir Bergþór í grein í Morgunblaðinu í dag.
Greinin er viðbragð við beitingu 71. greinar þingskapalaga sem var notuð til að stöðva málþóf stjórnarandstöðunnar í veiðigjaldamálinu. En Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsóknarflokkur settu Íslandsmet í því máli áður en Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingforseti, ákvað að stöðva þá og setja málið í atkvæðagreiðslu.
„Daginn sem 71. grein þingskapalaga var beitt í fyrsta skipti í tæpa sex áratugi urðu margir áhyggjufullir þegar fréttir bárust af því að fagnaðarlæti stjórnarliða hefðu ómað um þinghúsið. „High five“ virtist gefið á línuna; sungið, hrópað og dansað,“ segir hann.
Segir hann þetta ýta undir þá kenningu að það hafi verið ætlun stjórnarinnar allan tímann að nota 71. greinina. Verði kerfið þá „komið í æfingu“ til að nota greinina seinna, svo sem í málum tengdum Evrópusambandsaðild.
Fleiri meðlimir stjórnarandstöðuflokka hafa barmað sér vegna þessa. Meðal annars Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfus og Sjálfstæðismaður. Birtir hann gervigreindarmynd af þingmönnum að fagna og gefa „High five.“
„Mikið er það sorglegt að núverandi valdhafar skuli ganga fram af þeim hroka og stærilátum að fylgja beitingu valdboðs með slíku oflæti. Að mæta átökum með því að fagna í andlit andstæðings,“ segir Elliði í færslu á samfélagsmiðlum.
Önnur sem tekur undir orð Bergþórs er Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins.
„Tek undir að þetta var og er verulega ósmekklegt og vont dæmi um hvernig á að fara með vald,“ segir Diljá Mist og að hægt sé að finna samfélagsmiðlafærslur og myndir hjá stjórnarliðum þessu til stuðnings. „Ósvikin gleði yfir valdbeitingu sem hafði ekki verið notuð í áratugi,“ segir hún.
Mikill meirihluti landsmanna er ánægður með ákvörðun Þórunnar að beita 71. greininni eins og kemur fram í könnun Prósents um málið á þriðjudag. 65 prósent styðja ákvörðunina en aðeins 22 prósent eru andvíg.
Þá hefur fylgi stjórnarandstöðunnar fallið í könnunum undanfarið. Meðal annars í könnun Maskínu sem birt var í dag. Sjálfstæðisflokkur mælist nú aðeins með 18 prósent og Miðflokkur 10. Samfylkingin ein er með meira fylgi en þessir tveir flokkar samanlagt.