Hinn heimsþekkti breski þungarokkari Ozzy Osbourne er látinn 76 ára að aldri.
BBC greinir frá því að þetta komi fram í tilkynningu frá fjölskyldu hans en Osbourne hafði glímt við vanheilsu undanfarið meðal annars Parkinson-veikina.
Osbourne fæddist 3. desember 1948 og ólst upp í borginni Birmingham á Englandi. Hann öðlaðist heimsfrægð sem söngvari þungarokkssveitarinnar Black Sabbath á áttunda áratug síðustu aldar. Hljómsveitin er ein sú áhrifamesta í sögu þungarokksins en þekktustu og lofuðustu plötur sveitarinnar eru Paranoid (1970), Master of Reality (1971), and Sabbath Bloody Sabbath (1973).
Osbourne, sem var líka kallaður Myrkrahöfðinginn (e. Prince of Darkness), var þekktur fyrir vægast sagt kraftmikla framkomu á sviði en einna lengst gekk hann í þeim efnum þegar hann beit höfuðið af leðurblöku á tónleikum árið 1982 en hann sá síðar mjög eftir uppátækinu.
Osbourne var rekinn úr Black Sabbath 1979 vegna óhóflegrar vímuefnanotkunar en náði að byggja í staðinn upp öflugan sólóferil og gaf út alls 13 plötur sem seldust flestar í milljónum eintaka.
Hann og aðrir meðlimir Black Sabbath komu þó reglulega aftur saman eftir brottreksturinn en lokatónleikar sveitarinnar voru haldnir 5. júlí síðastliðinn á Villa Park leikvanginum í heimaborg þeirra Birmingham. Vegna heilsubrestsins þurfti Osbourne að sitja á meðan tónleikunum stóð en hann hafði áður tilkynnt að hann myndi ekki syngja á fleiri tónleikum. Um sannkallaða stórtónleika var að ræða en ýmsir þekktir gestasöngvarar komu fram með sveitinni en brot af þeim má sjá hér fyrir neðan.
Ozzy Osbourne lætur eftir sig sex börn. Þrjú átti hann með fyrri eiginkonu sinni Thelma Riley en hin þrjú með seinni eiginkonunni Sharon en þau höfðu verið gift í 43 ár þegar Osbourne lést. Sharon, sem var umboðsmaður manns síns, öðlaðist mikla frægð og Ozzy minnti aftur vel á sig í raunveruleikaþættinum The Osbournes sem vakti athygli um allan heim í upphafi þessarar aldar en kynna má sér þættina á Youtube en tvö yngstu börn Ozzy og Sharon, Kelly og Jack, komu einnig fram í þættinum.
Ozzy Osbourne var oft á tíðum skrautlegur en eftir stendur að hann var einn af goðsögnum rokksins en kynna má sér sólóverk hans nánar hér og tónlist Black Sabbath hér.