Óhætt er að segja að árás sem Eyþór Árnason ljósmyndari Morgunblaðsins varð fyrir, þegar hann var við störf við utanríkisráðuneytið að mynda mótmæli félagsins Ísland-Palestína sem fóru fram fyrr í dag, hafi verið almennt fordæmd af bæði fjölmiðlafólki og almenningi.
Maður nokkur mun hafa gengið á milli fjölmiðlafólks sem var viðstatt mótmælin og spurt fyrir hvaða fjölmiðla það starfaði. Þegar Eyþór upplýsti um hver vinnuveitandi hans er skvetti maðurinn rauðri málningu á hann.
DV hefur áður greint frá harðri gagnrýni Stefán Pálssonar sagnfræðings og varaborgarfulltrúa en meðal þess sem Stefán skrifaði í færslu á Facebook er:
„Þetta er algjörlega glatað og heimskulegt af svo mörgum ástæðum.“
„Ömurleg uppákoma“ segir Stefán um árás á ljósmyndara Morgunblaðsins
Meðal kollega Eyþórs sem fordæma árásina eru Kjartan Þorbjörnsson, oftast kallaður Golli, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands og ljósmyndari á Heimildinni. Hann skrifar á Facebook:
„Að einhver skuli leyfa sér að ráðast á Eyþór ljósmyndara Morgunblaðisns með þessum hætti er árás á alla blaðaljósmyndara landsins! Stéttin inniheldur örfáa einstaklinga, eins og staðan er orðin í fjölmiðlaumhverfi landsins, sem allir eru að gera sitt besta til að skrá íslandssöguna í myndmáli. Ég þekki engan íslenskan blaðaljósmyndara sem blandar sér inn í pólitík að nokkru leyti, allir vinna með öllu því fólki sem þeir hitta, mynda og skrásetja alveg sama hvaða skoðanir það fólk annars hefur á lífinu. Þessi fáránlegi gjörningur er skelfilegur fyrir alla aðila, ljótt skref í ómenningu sem við villjum ekki taka þátt í.“
Birta Björnsdóttir fréttakona á RÚV segir í færslu á Facebook að hana hafi grunað að svona nokkuð gæti gerst:
„Ég viðurkenni alveg að eitthvað þessu líkt hefur hvarflað að mér þegar póstsendingar, símtöl og merkingar í samfélagsmiðlafærslum ná hámarki inn á milli. Að á eitthvert okkar verði ráðist með öðru en orðum. Siðlaus fífl, samsekir lygarar og þátttakendur í þjóðarmorði, múslimasleikjur, málpípur Ísraelshers og fréttastofa Hamas, eru meðal fjölmargra viðurnefna sem við á fréttastofu RÚV höfum verið kölluð fyrir umfjöllun um hörmungarnar á Gaza. Umfjöllun, sem ekki frekar en annað, er hafin yfir gagnrýni. En er fyrst og fremst vinnan okkar sem við leggjum okkur fram um að sinna að heilindum og fagmennsku alla daga.“
Birta segist vel meðvituð um að flestir sem taki þátt í mótmælum til stuðnings Palestínu styðji ekki svona árásir gegn fjölmiðlafólki en að svona framkoma byrji hins vegar yfirleitt með orðum:
„Orð eru til alls fyrst og ef það er í lagi að hjóla linnulaust í fjölmiðlafólk með orðum er í mínum huga bara tímaspursmál hvenær einhverjir líti á það sem réttlætingu fyrir að taka málin í sínar hendur.Við deilum langflest þeirri tilfinningu að nánast óbærilegt er að fylgjast í fjarska með því sem hefur gengið á á þessu átakasvæði undanfarin misseri. Ástandi sem síst batnar. Lausnin er aldrei að fá útrás fyrir reiði sína og vonleysi vegna hörmunganna með því að ráðast á fólk sem er að skrásetja söguna og vinna vinnuna sína.“
Helgi Seljan kollegi Birtu á RÚV er afdráttarlaus í sinni fordæmingu:
„Þetta er ógeðsleg og óásættanleg framkoma við mann sem er einfaldlega að sinna vinnunni sinni. Hvorki Eyþór né aðrir blaða- og fréttamenn mæta á þennan vettvang, frekar en aðra, af því að þeir vilja það sérstaklega; hvað þá að gamni sínu, til að búa til vesen eða í einhverjum annarlegum tilgangi. Þeir eru þar til þess að miðla upplýsingum með sem bestum og skýrustum hætti til fólks; spegla samtímann.“
Það eru hins vegar ekki eingöngu starfssystkini Eyþórs í fjölmiðlastétt sem fordæma árásina en í athugasemdum við fréttir og færslur um málið má lesa fjölda ummæla þar sem athæfið er gagnrýnt harðlega og margir taka undir með Stefán Pálssyni um að hún geti skemmt fyrir frekari mótmælum til stuðnings Palestínu.
Félagið Ísland-Palestína harmar árásina á Eyþór og segir hana óásættanlega. Í færslu á Facebook-síðu félagsins segir að stjórn þess hafi beðið Eyþór afsökunar. Meðal athugasemda við færsluna eru:
„Helvítis fífl að eyðileggja fyrir öllum öðrum – frétta- og fjölmiðlamenn eiga að njóta friðhelgi þegar þeir eru að störfum! Ég styð mótmælin heilshugar, en þennan einstaka fávita á að kæra!“
Í annarri athugasemd er umfjöllun Morgunblaðsins um málefni Ísrael og Palestínu harðlega gagnrýnd og sögð hlutdræg en viðkomandi ítrekar að það réttlæti engan veginn slíka árás.
Í athugasemdum við fréttir fjölmiðla af málinu má lesa sams konar sjónarmið:
„Þvílíka fíflið, ég stend með fólkinu í Palestínu en skemmdarverk og árásir á fólk er glatað og kemur fólki upp á móti því að standa með Palestínu.“
Í sumum athugasemdum eru þeir sem eru ósáttir við mótmæli til stuðnings Palestínu sérstaklega harðorðir.
Myndband af hluta árásarinnar hefur verið birt á Facebook-síðu fréttastofu RÚV og það má sjá hér.