Í safni bréfa sem Ghislaine Maxwell tók saman í tilefni af fimmtugsafmæli Jeffreys Epstein árið 2003 á að hafa verið að finna bréf merkt nafni Donalds Trump, Bandaríkjaforseta. Bréfið hafi innihaldið nektarteikningu af konu þar sem nafnið „Donald“ var skrifað í stað skapahára. Í lok bréfsins stóð: „Til hamingju með afmælið – og megi hver dagur verða annað yndislegt leyndarmál.“
Frá þessu greinir bandaríski fjölmiðillinn Wall Street Journal.
Donald Trump hafnar alfarið að hafa ritað bréfið eða teiknað myndina. Í viðtali vegna málsins segist hann aldrei hafa „teiknað mynd á ævinni“ og hvað þá af nöktum konum.Bætti hann ennfremur við að orðanotkunin væri ekki hans stíl. Hótaði Trump að stefna blaðinu, móðurfélagi þess NewsCorp og eigandanum Rupert Murdoch fyrir meiðyrði ef fréttin yrði birt og fullyrti að bréfið væri „falsað“.
Í kjölfarið virðist Trump hafa tekið u-beygju varðandi gögnin í máli Epsteins. Birti forsetinn yfirlýsingu á samskiptamiðli sínum Truth Social þar sem hann greindi frá því að hann hefði falið dómsmálaráðherra sínum, Pam Bondi, að gefa út öll viðeigandi skjöl úr rannsókn Epstein-málsins, að fengnu samþykki dómara. Bondi svaraði um hæl á samskiptamiðlinum X að hún væri reiðubúin til þess, þótt slíkt gæti tekið tíma.
Umfjöllun Wall Street Journal hefur fallið í grýttan jarðveg hjá innsta kjarnanum í kringum Trump. Varaforsetinn JD Vance og hægrisinnaðir aktívistar eins og Laura Loomer og Charlie Kirk, hafa fordæmt fréttina og sagt hana vera „bull“ og „blekkingu“. Loomer hélt því meðal annars fram að Trump notaði aldrei ritvél eða tölvu – aðeins svartan Sharpie-penna.
Málið hefur enn á ný vakið athygli á tengslum Trumps við Epstein. Talsvert er til af myndum og myndskeiðum af þeim saman á tíunda áratugnum og Trump var meðal þeirra sem flugu með einkaflugvél Epstein. Hann segist þó hafa slitið sambandinu löngu áður en Epstein var fyrst sakfelldur árið 2008.