Reykjavíkurborg hefur framlengt frest til að senda inn athugasemdir vegna Birkimels 1 til 2. september 2025.
Í tilkynningu frá borginni segir að Vesturbærinn sé fjölbreyttur í byggð og formi, auk þess sem þar séu byggingar með sterkan karakter; Melaskóli, Háskólabíó, Neskirkja, Hótel Saga og Þjóðarbókhlaðan. Segir að Birkimel 1 sé ætlað að falla vel inn í þetta samhengi þar sem gætt er að hlutföllum, tengingu við göturými og gæðum almennt, jafnt jarðhæðar sem íbúðahæða að ofan.
Á lóðinni er nú bensínstöð Orkunnar, áður Skeljungs. Þar stendur til að byggja 4-5 hæða hús með 42 íbúðum af mismunandi stærð.
Um það bil 100 hjólastæði verða innan lóðar, þar af 84 innan byggingar. Segir í tilkynningunni að við skipulag lóðarinnar er lögð áhersla á bíllausan lífstíl og er gert ráð fyrir að bílastæði hreyfihamlaða og stæði fyrir deilibíl verði innan lóðar ásamt nokkrum stæðum fyrir íbúa eins og við verður komið. Samgöngumat sem var unnið leiddi í ljós að ekki er skortur á bílastæðum í borgarlandi á svæðinu.
Í deiliskipulags- og skýringaruppdrætti kemur fram að innan lóðar er gert ráð fyrir 3 stæðum fyrir hreyfihamlaða og einu stæði fyrir deilibíl. Samtals eru sex bílastæði innan lóðar í bílakjallara með bílalyftu, þar af eru þrjú stæði til almennra nota fyrir íbúa. „Í samræmi við bíla- og hjólastæðareglur Reykjavíkurborgar var unnið ýtarlegt samgöngumat dags. 14.03.2025 allt að 31 bílastæði, þar af minnst 6 stæði innan lóðar. Samkomulag um annars konar bílastæðafyrirkomulag veltur á framtíðar áformum innan næsta nágrennis, svo sem bílastæðahúsi. Endanlegt fyrirkomulag bílakjallara og aðgangstýringar hans verður gert grein fyrir við verkhönnun.
Framkvæmdaaðilar eru Reir verk en hönnun hússins er í höndum Nordic Office of Architecture á Íslandi. Í þeirri hönnun er áhersla lögð á fjölbreyttar tegundir íbúða í samræmi við skilyrði sem Reykjavíkurborg setur, meðal annars þau að um það bil fimmtungur íbúðanna eigi að vera fyrir námsmenn, leigjendur, eldri borgara eða búseturéttarhafa.“
Reykjavíkurborg hvetur fólk til að kynna sér tillöguna vel inn á heimasíðunni Birkimelur.is og skipulagsgátt.is en þar er hægt að skila inn athugasemdum vegna málsins til og með 2. september 2025.
„Eftir að fresti lýkur verða allar athugasemdir skoðaðar og metnar og þeim svarað formlega. Hér er um tillögu að ræða sem fellur vel að fyrirhugaðri umbreytingu háskólasvæðis HÍ sem snýst um að draga að sér nærliggjandi mannlíf inn á svæðið og í gegnum það, sér í lagi í tengslum við fyrirhugaðan hringgarð.
Bent er á að íbúðahúsnæði er nú þegar á jöðrum háskólasvæðisins í formi stúdentagarða/hjónagarða. Líklegt er að stúdentar muni búa í hluta íbúðanna. Gætt hefur verið að sjónrænu jafnvægi við hönnun íbúðablokkarinnar til að falla að heildarsvip götunnar.“
Í kynningu á byggingunni kemur fram að hún verði brotin upp og skipt í þrjá hluta sem stallast og hliðrast til meðfram Birkimel. Í kynningunni má sjá tölvumyndir sem sýna drög að útliti hússins.
Segir að byggingamagn ofanjarðar verði 4.120 fm og neðanjarðar 1.452 fm, eða samtals 5.572 fermetrar. Sameiginlegar miðlægar þaksvalir verði 222 fm. Í dag er á lóðinni 100 fermetra bensínstöð og veitingastaður. Það hús verður fjarlægt og sömuleiðis bensíndælur. Nýtingarhlutfall fer úr 0,05 í 3,84.