fbpx
Fimmtudagur 17.júlí 2025
Fréttir

Dagur vill fá stundaskrá fyrir þingveturinn – Treystir Þórunni best til þess

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 17. júlí 2025 11:30

Dagur B. Eggertsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingar, segir að stokka þurfi upp spilin og setja stundaskrá fyrir komandi þingvetur. Hann treysti engum betur til þess en Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingforseta.

„Eitt furðulegasta mont sem ég hef séð í stjórnmálum er ánægja stjórnarandstöðunnar með að hafa komið í veg fyrir að ríkisstjórn og Alþingi kæmi öllu því í verk sem hún vildi. Ég er ekki enn þá viss um hvort Morgunblaðið hampi þessu raupi stjórnarandstöðunni til hróss eða háðungar,“ segir Dagur í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Þingið hafi snúist um leiðréttingu veiðigjalda og málþófsgrein þingskapalaga hafi verið beitt til að stöðva tafaleiki. Málþófið hafi þó orðið til þess að umtalsverður fjöldi fullbúinna mála frestist fram á haust. „Og það taldi stjórnarandstaðan sigur! Lilju verður Vöggur feginn,“ segir Dagur.

Mörg góð mál kláruð

Ítrekar hann þó að fjölmörg mál hafi verið kláruð. Auk veiðigjalda nefnir hann stöðugleikareglu í umgjörð opinberra fjármála, vandi ÍL sjóðs hafi verið leystur, Íslandsbanki seldur án eftirmála og fjármálaáætlun samþykkt sem sýni að linnulausum hallarekstri ríkisins verði snúið í afgang.

„Stjórnarandstöðunni tókst að tefja fyrir fjárveitingum til viðhalds á vegum en þær hafa þó verið samþykktar. Framkvæmdir við sex ný hjúkrunarheimili hafa farið af stað eins og hönnun viðbygginga við fimm verknámsskóla. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað um 50 og meðferðarúrræði fyrir fíknisjúklinga eru nú opin allt árið,“ segir Dagur í sinni upptalningu. „Samkomulag var gert við sveitarfélögin um þjónustu við börn með fjölþættan vanda, nýtt samræmt námsmat samþykkt, Þjóðarópera stofnuð og tilvísunarkerfi fyrir börn í heilbrigðiskerfinu afnumið. Og þannig má áfram telja.“

Úrelt vinnubrögð

Sem nýr þingmaður segir Dagur undarlegt að kynnast úreltum vinnubrögðum í bland við fagmennskuna. Fylgifiskur málþófsins sé að þingmenn og starfsfólk viti sjaldan hver dagskrá morgundagsins sé fyrr en seint að kvöldi. Engin afmörkun sé á ræðutíma sem þýði að það sé ekki hægt að vita hvenær frumvörp komist á dagskrá.

„Þetta er fáheyrt og myndi hvergi líðast í skipulagi á vinnustað eða við ákvarðanatöku. Ekki hjá borginni eða sveitarfélögum, ekki í einkarekstri, á spítala eða í skólastarfi,“ segir hann og spyr. „Hvaða kennarar eða nemendur myndu sætta sig við að vita ekki dagskrá morgundagsins fyrr en kvöldið á undan. Hver yrðu gæði kennslustundanna?“

Kippa þessu í liðinn fyrir haustið

Segir Dagur að taka þurfti til hendinni við skipulag þingstarfanna. Engum treysti hann betur en Þórunni Sveinbjarnardóttur, forseta Alþingis, til þess. Það þurfi ekki flóknar breytingar, bara að innleiða festu og ákveða fyrirfram tíma fyrir ræður um hvert mál.

„Alþingi þarf stundaskrá,“ segir Dagur að lokum. Þannig yrði mun einfaldara að fylgjast með, kynnast ólíkum sjónarmiðum, leggja gott til og tryggja að fullunninn mál komist til atkvæðagreiðslu. „Þannig starfa öll þjóðþing nágrannalandanna, breska þingið og önnur þjóðþing Evrópu. Það er augljóst hvernig sumarhléi þingstarfa verði best varið. Kippa þessu í liðinn fyrir haustið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans

Musk hæðist að Trump og brotlendir nýrri samsæriskenningu forsetans
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Norskur ólympíuverðlaunahafi varð fyrir eldingu og lést

Norskur ólympíuverðlaunahafi varð fyrir eldingu og lést
Fréttir
Í gær

Fjölskylda Ghislaine Maxwell sakar bandarísk yfirvöld um rangláta málsmeðferð og hylmingu í Epstein-málinu

Fjölskylda Ghislaine Maxwell sakar bandarísk yfirvöld um rangláta málsmeðferð og hylmingu í Epstein-málinu
Fréttir
Í gær

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður
Fréttir
Í gær

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Í gær

Eldgos hófst í nótt: Á heppilegum stað og virðist ekki ógna innviðum

Eldgos hófst í nótt: Á heppilegum stað og virðist ekki ógna innviðum