Valdimar Leó Friðriksson segist ekki vera undir rannsókn Samkeppniseftirlitsins þar sem hann hafi ekki komið að stofnun Virðingar. Hann hafi rift ráðningarsamningi sínum við Virðingu.
Fyrir áramót var greint frá því að Valdimar Leó, sem er fyrrverandi þingmaður, yrði framkvæmdastjóri hins nýja stéttarfélags Virðingar. Efling hefur sakað Virðingu um að vera gervistéttarfélag, stofnað af atvinnurekendum í veitingageiranum.
Fyrir skemmstu var greint frá því að Valdimar Leó hefði boðið sig fram til forseta ÍSÍ, en hann á að baki langa stjórnarsetu og þátttöku í ýmsum íþróttasamböndum. Eftir að það var kunngjört lét Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í sér heyra á samfélagsmiðlum og voru birtar fréttir upp úr því. Það er að Efling hefði kært Virðingu til Samkeppniseftirlitsins og að í viðtali RÚV við Valdimar Leó hefði íþróttafréttamaður misst af tækifæri til þess að spyrja hann um aðkomu sína að Virðingu.
Valdimar Leó greinir núna frá því að hann hafi rift ráðningarsamningi sínum við Virðingu. Ástæðan sé sú að hann hafi ekki fengið nein laun greidd. Þá sé hann ekki til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu þar sem hann hafi ekki komið nálægt stofnun Virðingar.