Undanfarin misseri hafa deilur milli minnihluta og meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs reglulega ratað í fundargerðir bæjarstjórnar og ráða bæjarins. Minnihlutinn hefur sakað meirihlutann marg sinnis um að hafa ekkert samráð um málefni bæjarins og hafa þær ásakanir ekki síst beinst að Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Hefur einna mest borið á óánægju minnihlutans í bæjarráði sem segir meirihlutann og Ásdísi líta oft og iðulega alveg framhjá því að kynna mikilvæg mál í ráðinu og upplýsa alla fulltrúa. Nú síðast lýsti minnihlutinn á fundi bæjarstjórnar í gær því yfir að svör Ásdísar um skipulagsbreytingar á stjórnkerfi bæjarins sýndu fram á hún skildi bersýnilega ekki að það væri hlutverk bæjarráðs að annast framkvæmdastjórn bæjarins ásamt henni.
Í febrúar á þessu ári voru samþykktar í bæjarstjórn breytingar á stjórnkerfi bæjarins. Samkvæmt tilkynningu sem Kópavogsbær sendi þá frá sér fólst í breytingunum að stjórnsýslusvið og fjármálasvið bæjarins voru lögð niður og í stað þeirra urðu til fjórar skrifstofur um verkefni sviðanna: Skrifstofa umbóta og þróunar, skrifstofa þjónustu, skrifstofa mannauðs og kjaramála og skrifstofa áhættu- og fjárstýringar. Bæjarritari átti í nýju í skipuriti að vera næstráðandi bæjarstjóra og verði yfirmaður lögfræðiþjónustu, skjalaþjónustu og þjónustu við bæjarstjóra og fastanefndir. Skrifstofustjórar áttu að heyra beint undir bæjarstjóra eins og sviðsstjórar fagsviða.
Fram kom í tilkynningunni að auglýst yrði eftir skrifstofustjórum þriggja af þessum fjóru nýju skrifstofum. Framkvæmdastjórn sveitarfélagsins myndi í kjölfar breytinganna auk bæjarstjóra vera skipuð bæjarritara, mannauðsstjóra, þjónustustjóra, áhættu- og fjárstýringarstjóra, umbóta og þróunarstjóra, sviðsstjóra velferðarsviðs, sviðsstjóra menntasviðs og sviðsstjóra umhverfissviðs. Breytingarnar tóku gildi um mánaðamótin febrúar-mars.
Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gær lagði Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fram bókun þar sem fram kom að þrátt fyrir fyrirheit um að starfsáætlun bæjarráðs lægi nú fyrir þegar kæmi að undirbúningu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 hafi ekki bólað á henni enn. Kallaði Bergljót eftir starfsáætlun bæjarráðs og óskaði eftir því að við undirbúning næstu fjárhagsáætlunar yrðu persónuverndarfulltrúi, yfirmaður gæðamála og innri endurskoðandi hjá bænum kallaðir fyrir bæjarráð til að gera grein fyrir verkefnum sínum og vinnuaðstöðu.
Einhverjar umræður virðast hafa farið fram á bæjarstjórnarfundinum í kjölfarið og Ásdís veitt svör sem bæjarfulltrúar minnihlutans hafa ekki verið ánægðir með en þeir lögðu allir sem einn fram bókun í kjölfarið. Í henni kom fram að svör og skýringar bæjarstjórans varðandi stjórnkerfisbreytingar bæjarins sýndu glöggt að hún hefði engan skilning á hlutverki bæjarráðs, sem fari með framkvæmdastjórn bæjarins ásamt bæjarstjóra. Virðingarleysið fyrir þeirri staðreynd blasi við í þessu máli eins og öðrum.
Allir bæjarfulltrúar meirihlutans, að Ásdísi undanskilinni, svöruðu fullum hálsi með bókun þar sem kom fram að ávirðingar minnihlutans í garð Ásdísar gætu vart talist málefnalegar og því ekki svaraverðar. Skipulagsbreytingarnar hafi verið samþykktar mótatkvæðislaust í bæjarstjórn og framkvæmdar af bæjarstjóranum í framhaldinu. Skipulagsbreytingar sem hafi bein áhrif á hagi fólks geti verið flóknar og erfiðar.