Ganga þurfti á eftir því að handhafar veiðileyfa á hval frá árinu 2014 og fram til dagsins í dag færu eftir ákvæðum veiðileyfanna um að afhenda veiðidagbækur. Ekkert var gert í því fyrstu árin þótt veiðidagbækurnar hefðu ekki verið afhentar en loks var gripið til þess ráðs annars vegar að kæra málið til lögreglu og hins vegar að Fiskistofa krafðist afhendingar.
Þetta kemur fram í svari Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarsssonar þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Segir í svarinu að gengið sé út frá því að spurt væri um þær dagbækur sem tilgreindar eru í veiðileyfum gefnum út frá árinu 2014. Í leyfum til veiða á langreyði árin 2014–2018 og árin 2019– 2023 segi í 5. grein að skipstjóri skuli halda dagbók yfir veiðar og henni eða afriti hennar skuli skilað til Fiskistofu í lok vertíðar. Í veiðileyfum til hrefnuveiða árin 2014–2018 og árin 2019–2023 segi í 7. grein að skipstjóri skuli halda dagbók yfir veiðar og henni skilað til Fiskistofu í lok hverrar vertíðar.
Þegar kemur að eina handhafa veiðileyfa á langreyði, Hval hf., segir í svarinu að árin 2014 og 2015 hafi fyrirtækið ekki afhent veiðidagbók og engin viðbrögð hafi verið að hálfu yfirvalda við því.
Hvalur stundaði ekki veiðarnar árin 2016 og 2017. Þegar það stundaði næst veiðar 2018 afhenti það heldur ekki veiðidagbók en þá var það hins vegar kært til lögreglu en það ár fór Sjálfstæðisflokkurinn með sjávarútvegsmál í ríkisstjórn en það er ekki tekið fram í svarinu hvaða stofnun það var sem lagði fram kæruna á hendur Hval hf. en líklega hefur það verið Fiskistofa.
Síðan þá hefur Hvalur hf. alltaf afhent veiðidagbók í lok vertíðar þau ár sem félagið hefur stundað veiðar á langreyði.
Veiðileyfi á Hrefnu hafa frá árinu 2014 verið gefin út á 2-3 báta árlega, fyrir utan síðasta ár. Líkt og með veiðarnar á langreyði voru engar veiðdagbækur afhentar árin 2014-2017 (en síðasttalda árið var þó engin veiði stunduð) og viðbrögð af hálfu yfirvalda voru engin. Árið 2018 krafðist Fiskistofa hins vegar handhafa veiðileyfa á hrefnu um afhendingu á veiðidagbókum og afhentu þeir um leið veiðdagbækur fyrir þau ár frá 2014 sem viðkomandi hafði veiðileyfi og stundaði veiðar.
Frá 2018 hefur aðeins á einni vertíð verið stundaðar veiðar á hrefnu og afhenti handhafi veiðileyfisins veiðdagbókina í lok vertíðar.