Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að Stjarnan vann sinn fyrsta titil í körfuknattleik í gær. Sumir ákváðu að sýna ánægju sína með því að skjóta upp flugeldum í Garðabæ en ekki var öllum íbúum skemmt.
„Fannst fólki alveg í lagi að vera með svaka flugeldasýningu kl 3.30 í nótt?“ segir ein kona í færslu í íbúagrúbbu í Garðabæ.
Taka fleiri undir þetta, meðal annars fólk með lítil börn sem vöknuðu.
„Nei og 4 ára sonur minn var heldur ekki hrifinn,“ segir ein móðir.
„Tillitssemin er engin hjá sumum bæjarbúum. Gaman að gleðjast yfir titli – en óþarfi að gera það kl. 3.30 og vekja fjölda fólks með flugeldum,“ segir önnur kona.
„Lög gilda ekki um alla, greinilega. Ótrúlegt tillitsleysi. Frábært hjá Stjörnunni að vinna, en alveg óþarfi að vekja heilt bæjarfélag klukkan fjögur um nótt. Þetta var eins og stríð væri hafið beint fyrir utan svefnherbergisgluggann,“ segir enn önnur. En samkvæmt reglugerð um skotelda má aðeins skjóta þeim upp á tímabilinu 28. desember til 6. janúar ár hvert.
Stjarnan vann Tindastól norður á Sauðárkróki í oddaleik og tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins. Það voru ekki aðeins næturuglurnar sem sáu um að sprengja flugelda. Þeir voru einnig sprengdir upp strax að leik loknum.
„Einhver titill í boltaleik réttlætir ekki svona tillitsleysi. Kveiktu á kerti, skálaðu með þínu fólki eða póstaðu á samfélagsmiðla í stað þessa ófagnaðar. Vertu fyrirmynd,“ segir einn hneykslaður íbúi.