Jón Þór Ágústsson, eigandi King Kong keðjunnar, sem selur nikótínvörur, hefur birt mynd og nafn manns sem hann segir bera ábyrgð á innbroti í verslun King Kong í Skeifunni á aðfaranótt miðvikudags.
Segir Jón Þór að meintur innbrotsþjófur muni losna við alla eftirmála af brotinu ef hann skilar vörunum.
Innbrot í verslanir King Kong, sem eru sex talsins og verða brátt sjö, hafa verið tíð á undanförnum misserum og segist Jón Þór vera langþreyttur á ástandinu. Að þessu sinni voru teknar vörur á verðmæti á milli einnar og tveggja milljóna króna.
Aðspurður hvers vegna Jón Þór viti hver sá seki er segist hann hafa fengið ítrekaðar ábendingar um manninn, sem hafi verið að stæra sig af innbrotinu og sé að selja varning úr versluninni. „Það er búið að rigna inn ábendingum um að þessi strákur sé að reyna að koma dótinu í verð, hann var búinn að gorta sig af því við einhverja að hann hafi verið að brjótast inn í King Kong,“ segir hann.
Ennfremur sést hann í upptökum úr myndbandseftirlitsvélum vera að skoða sig um í versluninni tveimur dögum fyrir innbrotið.
Segir Jón Þór að maðurinn hafi ekki langan tíma til að hafa samband við sig og skila góssinu. „Að öðrum kosti verður bara lögð fram kæra á eftir,“ segir hann.