fbpx
Fimmtudagur 22.maí 2025
Fréttir

Dýrkeyptir svartir sauðir sem ekki mátti reka fyrir slaka frammistöðu, fyrir einelti, nektarplaköt eða fyrir trúnaðarbrot

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. maí 2025 15:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskiptaráð Íslands vill að stjórnvöld afnemi ríka uppsagnavernd opinberra starfsmanna. Þessi vernd komi í veg fyrir að hægt sé að bregðast við slakri frammistöðu eða brotum í starfi og valdi því að svartir sauðir halda störfum sínum á kostnað bæði skattgreiðenda sem og samastarfsfólks. Þetta kemur fram í skýrslu sem Viðskiptaráð Íslands birti í dag.

Sex dæmi eru sérstaklega tekin fyrir í skýrslunni og varða mál þar sem ríkið þurfti að greiða bætur vegna ólögmætra uppsagna.

Slök frammistaða

Í því fyrsta hafði Hagstofa Íslands sagt forritara upp störfum fyrir að uppfylla ekki þær kröfur sem til hans voru gerðar. Hann hafði átt í erfiðleikum með að tileinka sér nýja tækni og verkefnin hans gengu ýmist hægt eða mistókust. Landsréttur taldi ljóst að uppsögnin tengdist slakri frammistöðu í starfi og því að forritaranum hefði ekki tekist auka færni sína. Hins vegar var uppsögnin ólögmæt að mati Landsréttar þar sem Hagstofunni hefði borið að áminna forritarann fyrst með formlegum hætti. Ríkið þurfti að greiða forritaranum 6,8 milljónir í skaðabætur.

Einelti

Annað málið varðaði starfsmann ÁTVR sem var sagt upp störfum eftir að hafa gerst uppvís að einelti gegn samstarfsmanni sínum. Hann hafði áður verið áminntur fyrir þátttöku sína í eineltinu og unnin hafði verið skýrsla um samskipti á vinnustaðnum að beiðni ÁTVR. Dómstólar töldu þó að uppsögnin hefði verið ólögmæt þar sem starfsmanninum hafði ekki verið veitt tækifæri til að bregðast við ávirðingum áður en hann var áminntur. Þar með hefði ÁTVR brotið gegn andmælarétti hans. Starfsmaðurinn fékk 2,9 milljónir í skaðabætur og málskostnað.

Brot gegn trúnaðar- og starfsskyldum

Þriðja málið varðaði lögmann hjá Umboðsmanni skuldara. Honum var sagt upp fyrir að hafa misnotað stöðu sína með því að hafa í þrígang flett upp upplýsingum um fyrrverandi maka í tölvukerfum embættisins. Hæstiréttur taldi að viðkomandi hefði brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum. Uppsögnin var þó metin ólögmæt þar sem fyrst hefði átt að áminna lögmanninn og gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt. Ríkið þurfti að greiða 8,1 milljón í skaðabætur.

Nektarplaköt og óviðeigandi framkoma

Fjórða málið varðaði starfsmann á móttökustöð sorpeyðingarstöðvar. Honum var sagt upp eftir að hafa safnað efni af gámaplani til eigin nota, fyrir að leyfa öðrum að gera slíkt hið sama og fyrir að koma fyrir nektarplakötum í starfsmannaaðstöðu, þrátt fyrir að hafa verið beðinn um að fjarlægja þau. Eins hafði starfsmaðurinn sýnt óviðeigandi framkomu gagnvart viðskiptavinum, svo sem með móðgandi tali og með því að vísa fólki frá. Dómstólar töldu þetta þó ekki vera gróf brot í skilningi kjarasamnings. Þar með hefði borið á áminna viðkomandi áður en til uppsagnar kæmi. Uppsögnin var því metin ólögmæt og viðkomandi fékk 2,5 milljónir í skaðabætur.

Strætóbílstjóri sem ók bara helming leiðarinnar

Það fimmta varðaði strætóbílstjóra sem varð uppvís að því að aka ekki nema tæplega helming þeirrar leiðar sem honum bar að aka. Eins sinnti hann ekki kalli varðstjóra í talstöð. Viðkomandi hafði áður fengið munnlega áminningu fyrir að virða ekki tímasetningar og fengið tiltal vegna ýmissa atriða. Uppsögnin var þó metin ólögmæt þar sem viðkomandi fékk ekki formlega áminningu.

Fletti upp samstarfsfólki fyrir launaviðtal

Sjötta málið varðaði aftur Hagstofuna en þar var starfsmanni sagt upp eftir að hann fletti upp launakjörum samstarfsfólks síns með því að nota aðgang sem hann hafði fengið fyrir hagtölugerð. Þessar upplýsingar notaði hann til að útbúa samanburð sem hann sýndi yfirmönnum í launaviðtali. Stjórnandi ákvað við þetta að segja starfsmanninum fyrirvaralaust upp störfum og kærði málið jafnframt til lögreglu. Dómstólar tóku undir að starfsmaðurinn hefði farið út fyrir heimildir sínar, en Hagstofunni hefði engu síður borið að áminna hann og gefa honum færi á að bæta ráð sitt.

Viðskiptaráð segir þessi dæmi sýna það hvernig uppsagnaverndin geri stjórnendum erfitt fyrir að taka á starfsmannamálum. Lögin komi í veg fyrir að hægt sé að segja svörtum sauðum upp störfum. Viðskiptaráð metur að kostnaður hins opinbera af þessari uppsagnavernd nemi á bilinu 30-50 milljörðum á ári. Verndin dragi úr framleiðni með því að vinna gegn skilvirkri nýtingu á vinnuafli og fjármagni. Viðskiptaráð rekur að uppsagnaverndina megi rekja til ársins 1954 en henni var ætlað að gæta að hagsmunum almennings með því að verja opinbera starfsmenn frá stundarhagsmunum og geðþóttaákvörðunum. Síðan þessi vernd var leidd í lög hafi þó umfang hins opinbera á vinnumarkaði margfaldast.

Auk þess sé uppsagnaverndin svo rík, og dómar þar sem ríkið þarf að greiða skaðabætur vegna uppsagna svo margir, að uppsögnum sé nánast aldrei beitt. Á árunum 2004-2007 voru aðeins 17 opinberir starfsmenn, af 18.000 áminntir.

Skýrsluna má lesa hér. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Innbrotið í King Kong: Afhjúpar meintan sökudólg og gefur honum tækifæri til að skila góssinu

Innbrotið í King Kong: Afhjúpar meintan sökudólg og gefur honum tækifæri til að skila góssinu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Trump er ósáttur – „Andlega óhæfur bjáni“

Trump er ósáttur – „Andlega óhæfur bjáni“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Pútín kallar Zelenskyy nasista – Þetta er ástæðan fyrir því

Pútín kallar Zelenskyy nasista – Þetta er ástæðan fyrir því
Fréttir
Í gær

Skellinöðrukrakkar að æra fólk með hávaða – „Andskotans vespuhelvítin ykkar þið voruð að vekja barnið mitt“

Skellinöðrukrakkar að æra fólk með hávaða – „Andskotans vespuhelvítin ykkar þið voruð að vekja barnið mitt“
Fréttir
Í gær

Ágústa gekk hart fram gegn unglingsstúlkum sem maður hennar braut á – „Ég upplifði algjört hrun, af því að ég var búin að berjast svo mikið fyrir öllu“

Ágústa gekk hart fram gegn unglingsstúlkum sem maður hennar braut á – „Ég upplifði algjört hrun, af því að ég var búin að berjast svo mikið fyrir öllu“
Fréttir
Í gær

Gunni Helga reiður og pirraður: Áttaði sig á því í gær að launin hans hefðu lækkað – „Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr“

Gunni Helga reiður og pirraður: Áttaði sig á því í gær að launin hans hefðu lækkað – „Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr“
Fréttir
Í gær

Haukur skammaði Úlfar: Misboðið vegna ummæla í Morgunblaðinu

Haukur skammaði Úlfar: Misboðið vegna ummæla í Morgunblaðinu