Lýsing í lögregluskýrslu á innihaldi upptöku úr myndeftirlitsvél úr leigubíl sem var vettvangur meints brots sjónvarpsstjörnunnar Bassa Maraj, Sigurjóns Baltasar Vilhjálmssonar, leiðir ekki óyggjandi í ljós að Bassi sé sekur um allt það sem lýst er í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur honum.
Þannig er Bassi sagður hafa vafið posasnúru um háls leigubílstjórans en engin snúra kemur fram í lýsingu á myndbandinu. Í myndbandslýsingunni kemur fram að bílstjórinn og Bassi hafi hnoðast inni í bílnum, Bassi skipar bílstjóranum ítrekað að skila sér símanum sínum. Einnig segir í lýsingunni að Bassi sjáist taka bílstjórann hálstaki og reyna að bíta hann.
Einnig kemur fram í gögnum málsins að bílstjórinn, sem er erlendur, fór fram á hátt fjargjald fyrir að aka Bassa úr miðborg Reykjavíkur upp í Bryggjuhverfi.
Samkvæmt ákærunni átti atvikið sér stað í Bryggjuhverfinu í Árbænum þann 11. febrúar árið 2023. Sagt er að Bassi hafi bitið í hnakka bílstjórans og vinstri öxl, kýlt hann með krepptum hnefa í ennið, tekið hann kverkataki og vafið posasnúru um háls hans. Síðastnefndi verknaðurinn er hættulegur en miðað við myndbandslýsinguna virðist hann vera ósannaður.
Hlaut bílstjórinn tognun á hálsi, blæðingu undir slímhúð hægri auga, bitför og mar á hægri öxl og upphandlegg og yfirborðsáverka á háls og vinstri úlnlið.
Leigubílstjórinn fór hann fram á 14 þúsund krónur fyrir að aka Bassa frá miðborg Reykjavíkur að Tangabryggju. Eitt stopp var á leiðinni. Bílstjórinn segir Bassa hafa gengið út úr bílnum án þess að borga en Bassi segist hafa ætlað að ná í vin sinn og fá hann til að greiða fargjaldið. Bassi var óánægður með upphæð fjargjaldsins og taldi það vera of hátt.
Leigubílstjórinn hljóp út á eftir Bassa og tók af honum símann hans. Urðu í kjölfarið átök milli mannanna inni í bílnum þar sem Bassi var að reyna að endurheimta síma sinn.
Ekki náðist í Bassa við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt heimildum DV hefur hann haldið fram sakleysi sínu af ákæru um líkamsárás. Í lögregluyfirheyrslu skömmu eftir atvikið sagðist hann ekki hafa lamið eða bitið leigubílstjórann eins og haldið er fram í ákærunni. Hann kvaðst saklaus en þótti leiðinlegt hvernig fór og bað um að fá reikningsupplýsingar til að gera upp fargjaldið.