Karlmaður um fertugt hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í tengslum við alvarlega líkamsárás sem átti sér stað í Úlfarsárdal um miðjan dag í gær. Árásarþoli er karlmaður á fimmtugsaldri og hann var í gær fluttur á slysadeild. Að sögn lögreglu er líðan hans eftir atvikum. Vísir greindi frá því í dag að árásarþoli sé alvarlega særður en þó ekki í lífshættu.
Gæsluvarðhald var veitt á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Myndbönd eru nú í dreifingu frá vettvangi árásarinnar í gær en þar má sjá árásarmanninn munda stórt eggvopn. Íbúar í hverfinu voru slegnir eftir atvik málsins enda átti árásin sér stað um hábjartan dag úti á götu í barnmörgu hverfi.
Sjá einnig: Hryllingurinn á Skyggnisbraut – Nýtt myndband sýnir árásarmanninn sveifla stóru eggvopni