Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar hafa samþykkt að fara í sameiningarviðræður við Suðurnesjabæ og Voga. Suðurnesjabær telur hins vegar að of stutt sé eftir af kjörtímabilinu fyrir sameiningarviðræður.
Það voru Vogamenn sem stungu upp á sameiningu sveitarfélaganna þriggja á Suðurnesjum. Upphaflega voru þreifingar við Grindavík en vegna hamfaranna og óvissunnar varðandi það sveitarfélag er það ekki inni í myndinni núna.
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær var samþykkt að fara í formlegar sameiningarviðræður.
„Unnið hefur verið í samráði við stjórnvöld, óháðir ráðgjafar leiddu greiningarvinnu, íbúafundir haldnir og fjölmörg samtöl um málefnið hafa átt sér stað meðal kjörinna fulltrúa í sveitarfélögunum,“ segir í bókun allra fullrúa. „Að mati Reykjanesbæjar sýna niðurstöður þessarar vinnu að fjölmörg tækifæri felist í því að sameina sveitarfélögin. Sameinuð sveitarfélög eiga auðveldara með að veita og uppfylla kröfur um lögbundna þjónustu. Sameining myndi einnig styrkja þjónustu svæðisins í heild, s.s. á sviði leikskólamála, íþrótta- og tómstundamála, menningar og svo eitthvað sé nefnt. Eins getur sameining styrkt skipulagsmál innan svæðisins og á Suðurnesjum í heild. Sameinað sveitarfélag mun hafa mun sterkari rödd fyrir hönd Suðurnesja en sveitarfélögin hafa í sitthvoru lagi. Auk þess hafa allar greiningar sýnt að talsverð hagræðing er falin í sameiningu sveitarfélaganna.“
Hins vegar hefur bæjarstjórn Suðurnesjabæjar saltað sameiningarviðræður í bili. Eins og greint var frá í fyrradag telur hún að ferlið sé tímafrekt og að ekki sé nóg eftir af kjörtímabilinu til að klára málið. En kosið er til sveitarstjórna eftir um eitt ár og gjarnan er þá kosið um sveitarstjórnir nýsameinaðra sveitarfélaga.