Veðurfræðingurinn Sigurður Þ. Ragnarsson, eða Siggi stormur eins og við þekkjum hann best, segist hugsi yfir yfirlýsingu Bónus um allt sé ódýrt þar eftir að hann keypti sér hundamat í versluninni á margföldu verði miðað við Spán.
„Bónus auglýsir nú sem aldrei fyrr að ALLT SÉ ÓDÝRT í verslunum þeirra. Ég velti fyrir mér hvað sé átt við. Ég á hund og skoða því gjarnan verð á hundavörum hvar sem ég kem, þar á meðal hundamat,“ segir Siggi í færslu á Facebook.
„Í góðri matvöruverslun á Spáni kostar kílógrammið af hundamat (beef) – (tók ódýrasta sem ég sá) 0,97 evrur eða 145 kr./kg. Ódýrasta sem ég fann í Bónus var 467 kr/kg. eða 222% dýrara.“
Siggi tekur fram að hann sé ekki að taka tillit til gæða og segist ekki hafa gefið hundinum sínum fóðrið frá Spáni.
„En ég er hugsi yfir þessari verðlagningu því vel að merkja er fóðrið sem ég skoðaði á báðum stöðum innflutt vara. Einu sinni var talað um „hækkun í hafi“ í tiltekinni merkingu. Það finnst mér einhvern veginn það eiga svo sannarlega við hér.“