Guðni og Þorbjörg hafa átt í orðaskiptum á síðum Morgunblaðsins að undanförnu og var það Guðni sem reið á vaðið í kjölfar viðtals Dagmála við Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra á Suðurnesjum. Velti hann fyrir sér hvers vegna glæpagengi ættu svona auðveldan aðgang að landinu. Benti hann á að glæpagengin þurfi lítið að óttast vopnlausa og fjárvana lögreglu.
„Hvers vegna koma 7% flugfarþega um Keflavík með nafnleynd? Svaraðu því, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Lokaðu þessu gati strax,“ sagði Guðni meðal annars.
Sjá einnig: Guðni rifjar upp samtal:„Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi
Þorbjörg svaraði þessum orðum Guðna í vikunni með þeim orðum að verið væri að gera helling til að bregðast við. Þá hefði Guðni hengt bakara fyrir smið með því að benda á Schengen en ekki þá ríkisstjórn sem hann studdi síðastliðin sjö ár. Bætti hún við að Guðni virðist hafa gleymt sér við skrifin og ekki tekið eftir umfjöllun um aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar.
Í grein sinni í dag segir Guðni að Þorbjörg viðurkenni að ástandið sé óboðlegt og hún hafi tíundað eitt og annað smálegt sem gæti orðið til bóta.
„Hún sér hins vegar ekki aðalatriðið – eða vill a.m.k. ekki tala um það. Nefnilega að höggva einfaldlega á hnútinn eins og Alexander mikli forðum: Segja Íslendinga úr Schengen-samstarfinu eða að taka hið minnsta upp okkar eigin landamæravörslu eins og margar þjóðir gera þrátt fyrir aðild sína að Schengen,“ segir Guðni og heldur áfram:
„Ráðherranum finnst gaman að leggja lykkju á leið sína til þess að draga mig sem fyrrverandi hitt og þetta til ábyrgðar á getuleysi síðustu ríkisstjórnar. Þar kom ég auðvitað hvergi nærri og hef bæði gagnrýnt hana í mínum flokki og opinberlega. Í þeim efnum hafa íslensku landamærin alla tíð verið mér hugleikin á margan hátt, hvort heldur sem er til þess að standa vörð um mannlífið, náttúruna, matvælaöryggi, heilbrigði dýrastofna, vöxt og viðgang landbúnaðarins o.fl. Fyrrverandi ríkisstjórn á með húð og hári vandræðin þau sjö ár sem hún stjórnaði eða stjórnaði ekki landamærunum, fór vill vegar í leigubílaakstrinum og gerði sig seka um alls kyns meðvirkni sem enginn framsóknarmaður getur réttlætt eða verið hreykinn af.“
Sjá einnig: Þorbjörg svarar Guðna:Segir hann hafa gleymt sér og ekki tekið eftir öllu þessu
Guðni segir að munurinn á honum sem fyrrverandi og ráðherranum sem núverandi blasi við.
„Þorbjörg situr með veldissprotann í hendi. Hún getur tekið af skarið og leyst úr því ófremdarástandi sem langstærstur hluti þjóðarinnar vill að tekið verði tafarlaust á. Ég get það ekki þótt feginn vildi. Aumingjaskapurinn á landamærunum kostar fólkið í landinu, skattgreiðendur, gríðarlega fjármuni sem í mínum huga er beinlínis hent út um gluggann,“ segir hann og bætir við að hér dugi engin vettlingatök.
„Þeir sem á annað borð komast inn í Schengen-löndin geta ferðast þar um án þess að framvísa vegabréfum og gefa upp rétt nafn. Þar á meðal hingað til lands. Svörtu sauðirnir líka. Þess vegna stefnir ekki bara í óefni heldur hafa óveðursskýin hrannast upp í langan tíma. Ófremdarástandið er ekki áhyggjuefni morgundagsins heldur líðandi stundar. Mál er að linni. Þú getur – en þarft að hafa til þess meiri kjark en forverar þínir við stjórnvölinn. Það er engin lausn að byggja nýtt tukthús á landamærunum og kalla það „brottfararstöð“ með tilheyrandi gæslu. Sömu milljarðarnir munu fjúka út um gluggann. Taktu af skarið á meðan þú hefur vald til. Í dag ertu núverandi. Á morgun gæti það verið orðið of seint.“