fbpx
Fimmtudagur 15.maí 2025
Fréttir

Ása er stolt af því að vera þingkona: „Það er þó eitt við þetta starf sem ég er enn að reyna að skilja“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 15. maí 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, sem kom ný inn á þing fyrir Samfylkinguna eftir síðustu kosningar, segist reglulega fá spurningu um það hvernig sé í nýju vinnunni.

Í aðsendri grein á vef Vísis segist hún geta sagt mjög margt um nýju vinnuna sem hún kveðst vera ákaflega stolt af. Á Alþingi starfi mikið af öflugu fólki úr ólíkum áttu, verkefnin séu spennandi og krefjandi og þar fái hún að kynnast ýmsum krókum og kimum samfélagsins á allt annan hátt en áður.

Tefja með innihaldslausu rausi

„Það er þó eitt við þetta starf sem ég er enn að reyna að skilja. Það er það hvernig sumir þingmenn sem eru kjörnir á Alþingi til þess að vinna að hag þjóðarinnar finna sig knúna til þess að tefja framgang mála með innihaldslausu rausi í ræðustól Alþingis. Meira að segja í þeim málum sem samhljómur er um að séu mikilvæg eins og mörg þeirra sem hafa verið til umræðu síðustu vikur, síðast í gær um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Taíland, svo ekki sé minnst á plasttappamálið svokallaða,“ segir Ása Berglind í grein sinni.

Hún bendir á að síðan hún byrjaði hafi hún lært að hefðbundin málsmeðferð þingmála sé að þau komi í þingsal í fyrstu umræðu og fari svo í viðeigandi nefndir þar sem þau fá ítarlega umfjöllun þingmanna sem byggir meðal annars á umsögnum almennings, fyrirtækja og hagsmunaaðila.

„Í umfjöllun nefndanna er hægt að kalla eftir frekari gögnum og greiningum og kafa vel ofan í málin. Því næst fara málin í aðra umræðu inn í þingsal og ef þau breytast að einhverju leyti í þeirri umræðu þá fara þau aftur til umfjöllunar hjá viðeigandi nefnd áður en málin fara í þriðju og síðustu umræðu í þingsal,“ segir Ása og bætir við allt ferlið, frá fyrstu umræðu í þingsal til þeirrar þriðju, þurfi að klárast innan starfsársins, annars þurfi að byrja aftur á byrjunarreit á næsta þingi.

„Hvað finnst þér?“

„Nú vill svo til að hér urðu valdaskipti og verkstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur komið með fjöldann allan af málum sem hafa mest megnis verið í fyrstu umræðu síðustu vikurnar. Þrátt fyrir að allir þingmenn geti haft ótal snertifleti við þessi tilteknu mál í því ferli sem bíður þeirra, þá leika sumir þeirra nú þann leik að mása sig hása í ræðustól Alþingis hver á eftir öðrum með endalausum endurtekningum og útúrdúrum til þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin, sem var kjörin af meirihluta þjóðarinnar, geti unnið fyrir land og þjóð og komið málunum áfram. Mikilvægum framfaramálum eins og leiðréttingu veiðigjalda sem þjóðin styður í miklum meirihluta,“ segir Ása.

Hún kveðst ekki geta annað en velt fyrir sér virðingu þeirra sem leika þennan leik gagnvart tíma fólks sem starfar á Alþingi. Bendir hún á að það séu ekki bara þingmenn sem séu að störfum fram á kvöld og jafnvel nótt dag eftir dag heldur mikið af starfsfólki Alþingis.

„Ég spyr mig hvernig þingmenn sem kjósa að nýta tímann sinn með þessum hætti geti horft framan í fólkið í landinu sem greiðir okkur himinhá laun, og ég hugsa líka hvort þessu sama fólki þætti nýting á tíma starfsfólks, framlegð og árangur ásættanlegur ef hér væri um að ræða fyrirtæki sem þau væru að reka? Hvað finnst þér?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hilmar situr uppi með milljóna kostnað vegna ofsaveðurs og fær enga hjálp

Hilmar situr uppi með milljóna kostnað vegna ofsaveðurs og fær enga hjálp
Fréttir
Í gær

Ákærðir fyrir tvö innbrot í Áslandi sömu nóttina

Ákærðir fyrir tvö innbrot í Áslandi sömu nóttina
Fréttir
Í gær

Þessir tveir hlutir eru á algjörum bannlista hjá Karli og Kamillu í bresku konungshöllinni

Þessir tveir hlutir eru á algjörum bannlista hjá Karli og Kamillu í bresku konungshöllinni
Fréttir
Í gær

Tókst ekki að sanna dónaskap og virðingarleysi af hálfu Listaháskólans og fær ekki inngöngu

Tókst ekki að sanna dónaskap og virðingarleysi af hálfu Listaháskólans og fær ekki inngöngu