Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, sagði í viðtali við Morgunblaðið að útlit væri fyrir að starfsemi Fjölskylduhjálparinnar verði hætt í haust, meðal annars vegna þess að samtökin hafi ekki fengið úthlutað styrk frá félags- og húsnæðismálaráðuneyti.
Ásgerður gagnrýndi félags- og húsnæðismálaráðherra, Ingu Sæland, sem þekki starf Fjölskylduhjálpar en þó sagt Ásgerði að hún gæti ekkert gert í málinu.
Ráðherra hefur brugðist við frétt DV um málið en í yfirlýsingu kemur fram að eðlileg skýring sé á því hvers vegna Fjölskylduhjálp fékk ekki velferðarstyrk í ár. Samtökin sóttu nefnilega ekki um slíkan styrk.
Auglýst var eftir umsóknum um styrkina síðasta haust og fylla þurfti út umsókn í gegnum rafrænt form á vef Stjórnarráðsins. Það gerði Fjölskylduhjálp ekki.
Ráðherra tekur fram að það sé óumdeilt að hennar mati að Fjölskylduhjálp hefur veitt ómetanlegan stuðning í formi matargjafa og hafi hún því leitað leiða til að styðja samtökin frekar.
„Í mínum huga er óumdeilt að Fjölskylduhjálp Íslands hefur veitt ófáum fjölskyldum ómetanlegan stuðning í formi matargjafa, enda hef ég verið að leita leiða í ráðuneytinu, burtséð frá þessari formlegu umsókn sem ekki barst, til þess að styðja frekar þau góðu verk sem Fjölskylduhjálp Íslands vinnur í þágu þeirra sem mest þurfa á hjálp að halda.“
Sjá einnig: Ásgerður Jóna sár út í Ingu Sæland: „Í þriðja samtalinu sagðist hún ekkert geta gert“