Samkvæmt veðurspám verður mjög gott veður um helgina, sannkölluð bongóblíða um allt land. Hlýtt, bjart og lítill vindur víðast hvar.
Suðlægar áttir einkenna reyndar alla þessa viku samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. En oft skýjað og stundum örlítið regn við og við. Um helgina og fram á mánudag er hins vegar spáð mjög góðu veðri.
„Breytileg átt og yfirleitt bjart, en sums staðar þoka við sjávarsíðuna. Áfram hlýtt í veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar um veðurhorfur á laugardag og sunnudag.
Mesta hitanum er spáð á Austurlandi, 20 stigum síðdegis á laugardag en sólríkt og bjart um allt land. Meðal annars 16 stigum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og 18 stigum á Borgarfjarðarsvæðinu.
Eins og sjá má á vef norsku veðurstofunnar, yr.no, þá er þar sömu sögu að segja. Í Reykjavík megi búast við hita allt að 18 stigum, vægum vindi og nánast engri úrkomu.