
Rúmlega tvítugur maður var handtekinn á Akranesi laust eftir kl. 2 í nótt, á heimili sínu, grunaður um nauðgun gegn ungri stúlku. Þetta herma heimildir DV.
Samkvæmt sömu heimildum sótti maðurinn stúlku til Hafnarfjarðar í aðdraganda brotsins og ók með hana að heimili sínu á Akranesi þar sem meint brot átti sér stað.
Umræddur maður er á skilorði vegna brots sem varðar vörslu og dreifingu á barnaníðsefni. Annað nauðgunarmál gegn honum hefur einnig verið til rannsóknar undanfarið, það var fellt niður um tíma en nýlega var rannsóknin tekin upp aftur í ljósi nýrra gagna.
Óvíst er um aldur meints brotaþola en þó er staðfest að stúlkan er undir tvítugu.
DV hafði samband við þá Jónas Hallgrím Ottóson, lögreglufulltrúa á Vesturlandi, og Ásmund Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjón við embættið. Þeir staðfestu báðir að kynferðisbrot á Akranesi væri til rannsóknar en sögðust ekki geta gefið meiri upplýsingar.
Ásmundur staðfesti þó að maðurinn hefði verið handtekinn og hann hefði enn verið í fangageymslu í morgun. Hafði hann ekki upplýsingar um hvort maðurinn er enn í haldi lögreglu.