
Nokkra athygli vakti í gær að boðað var til fundar alls starfsfólks Borgarholtsskóla í hádeginu. Samkvæmt heimildum DV er það fremur óvenjulegt þó að kennarafundir séu algengir, til dæmis funda bóknámskennarar reglulega. Ársæll Guðmundsson skólameistari segir í samtali við DV að ekkert óvenjulegt hafi verið við þessa fundarboðun.
Aðrar heimildir segja hins vegar að óvenjulegt sé að starfsmannafundir séu ekki opnir á Teams líkt og var í gær. Bryndís Valberg, kennari við skólann, sem er í veikindaleyfi vegna krabbameinsmeðferðar, segir að Ársæll hafi á fundinum lýst yfir reiði yfir fréttaflutningi DV á málefnum skólans og áfellst kennara fyrir að leka upplýsingum í fjölmiðla.
Var sérstaklega vísað í þessa frétt:
Þar segir frá því að Ársæll hafi látið koma fyrir púsluspili með skrípamynd Morgumblaðsins af Ingu Sæland ráðherra í tengslum við skóparsmálið fræga en Inga hringdi sem frægt varð í Ársæl vegna glataðs skópars barnabarns hennar og hefur Ársæll farið hörðum orðum um símtalið. Eins og almælt er ákvað Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra að auglýsa stöðu skólameistara Borgarholtsskóla í haust í stað þess að endurráða Ársæl. Ársæll hefur lýst því yfir að þar sé tenging við skóparsmálið og um sé að ræða hefndarleiðangur af hálfu Ingu Sæland.
„Valinn var áberandi staður fyrir púsluspilið þannig að það færi ekki fram hjá neinum sem leið átti um rýmið, þar með talið gestum skólans,“ segir heimildarmaður DV um púsluspilið.
Púsluspilinu var komið fyrir í setustofu starfsfólks og var þar í fimm vikur. Sumum blöskraði þetta, segir heimildarmaður, og fáir vildu spreyta sig á púsluspilinu.
Bryndís Valberg hefur kært Ársæl fyrir einelti en menntamálaráðuneytið úrskurðaði að um ágreining hafi verið að ræða. Hún hefur lýst því yfir að hún muni kæra þann úrskurð til Umboðsmanns Alþingis. Bryndís hefir einnig kært til Persónuverndar meðferð á persónuupplýsingum sínum í tengslum við, að hennar sögn, tilhæfulausa kvörtun nemanda gagnvart henni sem hún segir hafa verið nafnlausan rógburð. Nánar verður fjallað um þessi mál síðar.
Bryndís hefur verið í sambandi við fundarmenn en hún sótti fundinn ekki sjálf. Hún segir:
„Á fundinum í Borgarholtsskóla í gærmorgun tilkynnti Ársæll starfsfólki að hann væri reiður út af fréttaflutningi DV og skammaði starfsfólk fyrir að ræða við fjölmiðla. Hann talar alltaf um sjálfan sig í þriðju persónu. Mjög sérstakur kækur. Jafnframt skammaði hann kennara og sagði að það væri uppljóstrari í kennarahópnum sem væri að skemma fyrir honum og hann stóð í hótunum gagnvart þessum uppljóstrara. Hann taldi sig verða fyrir árásum og vorkenndi sér. Hann ræddi jafnframt um sinn sérstaka húmor, þegar umræða um púsluspilið góða, sem gerði lítið úr DV, barst í tal.“
Bryndís segir ennfremur að óvenjulegt hafi verið að fundurinn var ekki opinn á Teams:
„Allir almennir kennarafundir hafa verið opnir á Teams, en i þetta sinn var fundurinn lokaður. Kennarar veltu þessu fyrir sér, en enginn þorði að segja neitt og flestir eru löngu hættir að spyrja, því ef það gerist þá þá fær fólk á baukinn. Hann bregst yfirleitt hinn versti við og segist ekki þurfa að ræða nokkuð eða fá samþykki kennara fyrir hlutunum. Lýðræðisleg vinnubrögð hurfu úr skólanum þegar hann tók við störfum. Hann er algjörlega einráður harðstjóri.“
Segir Bryndís að Ársæll hafi flutt lofræðu um sjálfan sig á fundinum:
„Það kom engum á óvart á fundinum að hann talaði svona, í ljósi þess að hann hefur aldrei þolað það að vera gagnrýndur. Á fundinum í gærmorgun var Ársæll jafnframt með einræðu um það hvað hann væri frábær og klár og talaði um sjálfan sig og hældi sér eins og hann gerir vanalega. Hann var með langa glærusýningu um æviágrip sitt og sjálfan sig sem hann vildi sýna öllum. Kennarar voru almennt sammála því að þetta var einum of mikil lofræða. Flestir eru orðnir vanir þessu, en þetta er alltaf jafn hundleiðinlegt að hlusta og horfa á.“
Bryndís segir að ógnarstjórn Ársæls hafi bitnað á mörgum kennurum í gegnum árin. Dæmi séu um að kennarar hafi fengið uppsögn á staðnum fyrir að mótmæla orðum skólameistarans.
Samkvæmt öðrum heimildum DV frá fundinum voru tveir kennarar sem lýstu yfir áhuga á að samþykkt yrði stuðningsyfirlýsing við Ársæl á fundinum. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn og var stuðningsyfirlýsing ekki lögð fram. Þriðji kennarinn var í síðustu viku að undirbúa undirskriftalista til stuðnings Ársæli. Samkvæmt sömu heimild ofbýður mörgum kennurum það framtak.
DV hafði samband við Ársæl vegna málsins. Hann sagðist aðspurður ekki vilja tjá sig um fundinn. „Bara venjulegur fundur. Ekkert meira um það að segja.“
Aðspurður hvort stuðningsyfirlýsing við hann hefði verið samþykkt við hann á fundinum sagðist hann ekkert vilja tjá sig um það. „Þetta var bara góður fundur eins og alltaf og á venjulegum fundartíma starfsmannafunda og ekkert meira um það að segja.“
DV spurði Ársæl hvort vanalegt væri að allir starfsmenn skólans væru kallaðir til fundar. „Það er bara misjafnt hvað við erum að gera og um hvað við erum að tala. Þetta er bara fundartími í stundarskrá allra. Þannig að þetta er ekkert óvanalegt og ekkert sérstakt við þetta.“