

Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimildarinnar, segir að Íslendingar þurfi að búa sig undir að Bandaríkjamenn reyni að hafa áhrif á kosningar hér á landi. Ný og umdeild þjóðaröryggisstefna landsins sýni það.
„Ný þjóðaröryggisstefna Bandaríkjaforseta, sem felur í sér að „ýta undir andstöðu innan Evrópuþjóða við núverandi stefnu álfunnar“, er einfaldlega opinber staðfesting á því að Íslendingar þurfa að búa sig undir að Bandaríkin beiti getu sinni til að hafa áhrif á kosningar hér á landi,“ segir Jón Trausti í færslu á samfélagsmiðlum.
Ekki segir hann hins vegar hvernig Bandaríkjamenn munu gera það eða fyrir hvaða flokka. En hafa ber í huga að Donald Trump hefur skipt sér af kosningum í öðrum löndum að undanförnu. Meðal annars í Hondúras og Argentínu þar sem hann hefur stutt öfgahægrimenn og hótað að draga fjárstyrki til baka ef þeir fái ekki brautargengi.