

Þar skrifar hann um erfðafjárskattinn og segir að reynsla Norðurlandanna, einkum Svíþjóðar og Danmerkur, sýni að skatturinn skili litlu til hins opinbera en geti haft ýmis neikvæð áhrif í för með sér.
Helgi hefur búið bæði í Danmörku og Svíþjóð og segir hann í grein sinni að útfærsla erfðafjárskattsins í Svíþjóð hafi haft ýmsar skaðlegar hliðarverkanir.
„Upp komu hrægammafyrirtæki sem sérhæfðu sig í að sigta út fjölskyldufyrirtæki sem menn vissu að yrðu þvinguð í sölu þegar andlát yrði í fjölskyldunni. Kynslóðaskipti í rekstrinum voru því varasöm. Menn sáu skaðlegar fjölskyldudeilur þar sem erfingjar deildu um hvað ætti að gera við seglbátinn eða sumarhúsið. Það er ekki á slíkar deilur bætandi með vitlausum sköttum,” segir Helgi sem nefnir svo dæmi um stórt fjölskyldufyrirtæki þar sem ættmóðirin taldi að hún hefði vel efni á að borga skattinn.
„Fyrirtækið var skráð á markað og þegar ættmóðirin lést um 100 ára gömul vissu allir að fjölskyldan þyrfti að selja. Skattstofninn var markaðsgengi á dánardegi. Markaðsaðilar sameinuðust um að kaupa ekki, fyrirtækið var selt á hrakvirði og nýju eigendurnir völdu skástu bitana (asset-stripping) og settu restina á brunaútsölu. Erfingjarnir, fólk á miðjum aldri og eldra, gengu slippir og snauðir frá ævistarfinu og þekkingin í fyrirtækinu glataðist.“
Helgi segir í grein sinni að lögin hafi verið plástruð til þannig að fjárfestingar í atvinnurekstri fengu sérmeðferð.
„Menn sáu að skattstofninn gæti ekki verið eitthvað ímyndað verð, t.d. á seglbát eða sumarhúsi sem hefur verið í eigu fjölskyldu árum saman og alls ekki mætti gjaldfella skuldina strax. Mönnum datt í hug að ef til vill ætti skatturinn ekki að gjaldfalla fyrr en eignir væru seldar.“
Helgi segist hafa lært þessi dæmi seint á áttunda áratugnum, en hann lauk námi 1986. Deilurnar um erfðafjárskattinn hafi hins vegar haldið áfram með tilheyrandi plástrun, en það var ekki fyrr en eftir aldamót að skriður komst á málið.
„Menn sammæltust um að leggja niður erfðafjárskattinn 1. janúar 2005. Sterkur krataforingi (Göran Person) var lykilmaður í þessu verkefni. Niðurlagningin var þó látin virka afturvirkt frá 17. desember 2004 vegna harmleiks þegar fjöldi Svía lést í flóðbylgju í Asíu. Þar dó margt ungt fólk sem ekki var búið gera ráðstafanir (skatteplanering). Þingmönnum þótt ekki rétt að hrella syrgjandi aðstandendur frekar. Sjaldan hefur fengist önnur eins samstaða um nokkuð mál í sænska þinginu. Aðrir ómögulegir skattar voru í kjölfarið einnig lagðir niður, svo sem auðlegðarskattar og skattar á gjafir. Menn skildu að andlát er ekki eignamyndandi atburður. Eignir fá bara nýjan hirði. Það er best að láta hirðaskiptin ganga sem ódýrast fyrir sig. Það er hverju samfélagi mikilvægt að fjárhirðar vandi sig.“
Helgi segir að í Danmörku hafi erfðafjárskattur verið felldur niður og í staðinn verið fundinn upp svokallaður dánarbússkattur.
„Dánarbúið er rekið eins og fyrirtæki þar til heppilegar markaðsaðstæður bjóða upp á að það sé leyst upp. Dánarbú eru mjög mismunandi, erfitt að meta þau og eignir í þeim misvel seljanlegar. Hætt er við að svona reglur skapi hökt á eignamarkaði. Noregur, Austurríki og fleiri lönd hafa einnig sett erfðafjárskattinn niður í núll með svipuðum rökum. Önnur hafa hækkað frítekjumark mikið. Finnar ræða um að lækka eða fella niður erfðafjárskattinn. Menn sjá að fyrirtæki reyna að komast burt sem er erfitt fyrir bændur og landeigendur. Eignamöt eru mikilvæg, t.d. fyrir banka og tryggingafélög. Slík verkefni eiga ekki að vera á vegum hins opinbera. Öðrum farast þau betur úr hendi og útkomurnar eiga alls ekki að vera skattstofn,“ segir hann.
Hann segir að lokum að í löndum þar sem erfðafjárskattur hefur verið er þetta lítill og flöktandi þáttur í tekjum hins opinbera sem kallar á flókna meðferð í bókhaldi.
„Ef stjórnvöld vilja vera með jafnandi aðgerðir eiga þær að fara fram í skólakerfinu, öllum kennt að lesa og skrifa. Ég vona að Íslendingum öðlist að fá sterka krataleiðtoga sem fella niður subbuskatta eins og erfðafjárskattinn og ekki þurfi þjóðarharmleik til. Við þurfum að læra af Svíum og fleirum.“
Grein Helga má lesa í heild sinni hér.