fbpx
Mánudagur 29.desember 2025
Fréttir

Læknar sakaðir um að falsa sjúkraskýrslu – Til rannsóknar hjá landlækni í þrjú ár

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 29. desember 2025 22:00

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umboðsmaður alþingis hefur lokið máli sem varðar margþætta kvörtun ónefnds einstaklings. Í bréfi umboðsmanns til viðkomandi er meðal annars vísað til kvörtunar vegna meintra falsana tveggja lækna á upplýsingum í sjúkraskrá kvartandans. Fram kemur einnig að kvörtun í garð læknanna sem var lögð fram hjá embætti landlæknis í nóvember 2022 hafi verið til skoðunar síðan, í meira en þrjú ár, en nú hilli hins vegar undir niðurstöðu.

Bréf umboðsmanns er dagsett 17. desember síðastliðinn og var birt nú í dag á vefsíðu embættisins.

Í bréfinu er vísað til kvörtunar sem viðkomandi lagði fram til umboðsmanns í október síðastliðnum. Sú kvörtun hafi beinst einkum að embætti landlæknis og lúti að viðbrögðum þess við erindi kvartandans sem varði aðgang að hans að sjúkraskrá sinni hjá tveimur heilbrigðisstofnunum. Þá hafi komið fram í samtali umrædds einstaklings við starfsmann hjá embætti umboðsmanns að kvörtunin lúti jafnframt að því að tveir nafngreindir læknar, sem starfi hjá umræddum heilbrigðisstofnunum, hafi falsað skráningar og skráð rangar upplýsingar í sjúkraskrána. Loks lúti kvörtunin að töfum á afgreiðslu máls hjá landlækni, en meðferð þess hafi byrjað með framlagningu kvörtunar til embættis landlæknis 7. nóvember 2022.

Fram kemur í bréfinu að umræddur einstaklingur hafi í september 2024 lagt fram kvörtun til umboðsmanns sem einnig hafi snúist um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum og skráningu í sjúkraskrá. Rifjar umboðsmaður upp það sem kom fram í bréfi til kvartandans þá að ekki sé hægt að kvarta til embættisins fyrr en stjórnvöld hafi úrskurðað í viðkomandi máli.

Ekki lokið

Segir því næst í bréfinu að af þeim gögnum sem fyrir liggi verði ekki betur séð en að háttsemi læknanna tveggja, þ.e. meint fölsun þeirra á sjúkraskrárupplýsingum kvartandans, sé meðal þess sem komi til með að hljóta umfjöllun í því máli sem nú sé til meðferðar hjá landlækni. Í kvörtuninni vegna þess máls, sem lögð var fram hjá landlækni 7. nóvember 2022, komi til að mynda fram að kvartandinn telji að tilteknar skráningar og bókanir læknanna í sjúkraskrá séu „ósannindi“ og „hrein fölsun“.

Þar sem fyrir liggi að landlæknir hafi ekki lokið umfjöllun sinni sé ljóst að umboðsmanni Alþingis sé ekki fært að taka kvörtunina til frekari skoðunar að svo stöddu.

Segir enn fremur í bréfinu að þegar komi að þeim lið kvörtunarinnar sem snúi að töfum hjá landlækni á afgreiðslu málsins frá nóvember 2022 sé að vert að árétta að almennt sé ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafi lokið umfjöllun sinni um það.

Þegar hins vegar umboðsmanni berist kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggi að mál hafi verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hafi ítrekað erindi sitt hafi, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls.

Þetta hafi ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hafi reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hafi brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert sé að afgreiða málið. Í þessum tilvikum ljúki umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Umboðsmaður hafi hins vegar gætt varfærni gagnvart því að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort málsmeðferð stjórnvalds hafi brotið í bága við málshraðareglu áður en málið hafi verið til lykta leitt.

Virk vinnsla

Segir því næst í bréfinu að með kvörtuninni hafi fylgt meðal annars afrit af tölvupósti frá starfsmanni landlæknis. Þar komi fram að málið sé á lista yfir mál í álitsritun sem sé lokastig málsmeðferðar. Með hliðsjón af þessum samskiptum séu ekki forsendur til að álykta á annan veg en að málið sé í virkri vinnslu hjá landlækni og að kvartandinn megi vænta niðurstöðu í því á næstunni. Því sé ekki tilefni til að aðhafast vegna kvörtunarinnar, að þessu leyti.

Aðgangur

Þegar kemur að þeim lið kvörtunarinnar er snýr að því að viðkomandi hafi verið synjað um aðgang að sinni eigin sjúkraskrá segir í bréfi umboðsmanns að viðkomandi hafi farið fram á aðstoð embættis landlæknis við að fá aðgang að sjúkraskrá hjá tveimur heilbrigðisstofnunum. Í ódagsettu svari landlæknis vegna þessa, sem sé meðal fylgigagna með kvörtuninni til umboðsmanns, sé tekið fram að með þessu hafi ekki fylgt nein gögn um að viðkomandi hafi verið synjað um afrit af umræddum sjúkraskrám.

Ekki sé unnt að halda meðferð málsins áfram fyrr en landlækni berist afrit af fyrrgreindum synjunum. Þá hafi komið fram í samtali kvartandans við starfsmann umboðsmanns að hann hafi beint beiðni um aðgang að sjúkraskrá sinni til umræddra heilbrigðisstofnana en ekki fengið nein viðbrögð við henni.

Hvað varði þennan hluta kvörtunarinnar sé rétt, líti viðkomandi svo á að hann hafi ekki fengið fullnægjandi aðgang að sjúkraskrá sinni hjá þessum heilbrigðisstofnunum, að hann leiti til þeirra, ítreki beiðnir um aðgang og óski eftir skriflegum svörum við þeim. Fari svo að beiðnunum verði synjað sé hægt að bera þær ákvarðanir undir landlækni og sömuleiðis verði óhóflegur dráttur á afgreiðslu beiðnanna um aðgang.

Með vísan til alls þessa lætur umboðsmaður athugun á málinu lokið en tekið er fram að þegar niðurstaða liggi fyrir hjá landlækni geti viðkomandi lagt fram nýja kvörtun sé hann ósáttur eða ef fyrirheit um afgreiðslu málsins standist ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Svíþjóð brást of seint við skipulagðri glæpastarfsemi – Ísland hefur enn tíma

Svíþjóð brást of seint við skipulagðri glæpastarfsemi – Ísland hefur enn tíma
Fréttir
Í gær

Egill tætir í sig myndband Miðflokksmanna – „Í Kópavogi var rekið það sem kallaðist Fávitahæli“

Egill tætir í sig myndband Miðflokksmanna – „Í Kópavogi var rekið það sem kallaðist Fávitahæli“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur

Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Rukkaður fyrir misheppnaða viðgerð á bíl

Rukkaður fyrir misheppnaða viðgerð á bíl
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Sakamál ársins I: Sjúkratryggingasvindlarinn, meintur banamaður Geirfinns nafngreindur og það sem þú vissir ekki um Gufunesmálið

Sakamál ársins I: Sjúkratryggingasvindlarinn, meintur banamaður Geirfinns nafngreindur og það sem þú vissir ekki um Gufunesmálið
Fréttir
Fyrir 6 dögum

Sambýlisfólk í góðri trú handtekið við komuna heim frá Alicante vegna mistaka Lyfjastofnunar

Sambýlisfólk í góðri trú handtekið við komuna heim frá Alicante vegna mistaka Lyfjastofnunar