

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason furðar sig á myndbandi sem nú gengur um netheima og er merkt Miðflokksmönnum. Er um að ræða myndband með efni sem vísar í Ísland frá því um miðja síðustu öld og með textanum „Gerum Ísland frábært á ný,“ sem er vísun í hægriöfgahreyfinguna MAGA í Bandaríkjunum og Donald Trump forseta.
Egill nefnir að í fyrsta lagi sé efnið líklegast stolið og svo sé boðskapurinn undarlegur.
„Myndefnið var mestanpart frá árunum frá því stuttu eftir stríð, ég kannaðist við mikið af því úr starfi mínu- þykir reyndar líklegt að þarna hafi það verið tekið ófrjálsri hendi. En ég fór að velta fyrir mér boðskapnum,“ segir Egill.
Það er að samfélagið á þessum tíma hafi verið langtum verra, hættulegra og ófrjálsara en það er í dag. Þetta sé tími sem fæstir myndu raunverulega vilja hverfa aftur til þó að landið hafi auðgast mikið á stríðsárunum. Nefnir hann ýmis dæmi því til stuðnings.
„Í landinu voru aðeins tveir menntaskólar – fæstir höfðu kost á að fara í langskólanám. Konur voru á lægra kaupi en karlar – voru reyndar upp til hópa við heimilisstörf þar sem karlar tóku lítinn sem engan þátt. Þær voru ekki á þingi eða í forystu í atvinnulífi,“ segir Egill. „Þarf ekki að taka fram að samkynhneigt fólk var í algjörum felum.“
Á þessum tíma hafi bændur verið að flosna upp af jörðum sínum í stórum stíl og flytja á mölina. Landauðn horfði við í sumum sveitum. Sjómennska var á þessum tíma mjög háskaleg atvinna og fjöldi karla drukknaði á hverju ári. Þá hafi verkamannavinna verið mikið strit.
„Ævilengd var mun styttri á þessum árum en nú og meðferð á fötluðu fólki myndum við núorðið telja óbærilega,“ segir Egill. „Í Kópavogi var rekið það sem kallaðist Fávitahæli.“
Húsnæðismálin voru í miklum ólestri og fólk bjó þröngt í lélegu og leku húsnæði. Notast var við herskála úr stríðinu, það er braggana, í sumum hverfum.
Fæstir Íslendingar komust nokkurn tímann til útlanda á þessum árum. Vinnuvikan var lengri en nú og sumarleyfisréttur mun styttri.
Þá nefnir hann hið alræmda skömmtunarkerfi. Það er til að halda gjaldeyri í landinu þurfti að skammta ýmsan varning, svo sem bifreiðum, fötum, skóm og ýmsum öðrum neysluvörum. Mikil spilling hafi verið í kringum þetta kerfi og almenn landlæg spilling í stjórnmálum og viðskiptum.
„Svona má lengi rekja söguna – þau má auðvitað segja á móti að fólk hafi verið nægjusamara, einn helsti gallinn á samfélaginu sem við lifum í er líklega hinn ægilega ofgnótt,“ segir Egill. „En sennilega myndu þó fæstir vilja skipta.“