

Viðar á þarna við tónlistarkonuna Bríeti sem hefur um nokkurra ára skeið verið ein sú allra vinsælasta hér á landi. Athygli hefur vakið að hún birtir nokkuð reglulega myndir eða myndbönd af sér á samfélagsmiðlum þar sem hún sést reykja eða púa smávindla.
Þá vakti það athygli í nóvember, þegar Bríet flutti lagið Walk Out The Door í Vikunni með Gísla Marteini, þegar hún sást reykja á meðan hún flutti lagið.

DV leitaði viðbragða hjá Viðari vegna málsins, en hann hefur um langt skeið verið verkefnastjóri tóbaksforvarna hjá landlæknisembættinu.
„Alvarleiki málsins er að reykingar eru mjög skaðlegar heilsu þar sem um helmingur þeirra sem ekki ná að hætta deyja fyrir aldur fram,“ segir Viðar og bætir við að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætli að sjö milljónir manna deyi af völdum reykinga í heiminum á ári hverju.
Viðar segir að á Íslandi hafi tekist með öflugu starfi að draga úr tíðni reykinga þar sem um helmingur landsmanna reykti í kringum 1985. Bendir hann á að margar þjóðir hafi sett sér markmið um að ná daglegum reykingum niður í 5% og nú sé útlit fyrir að Ísland verði með fyrstu þjóðum Evrópu til að ná þessu markmiði í ár.
„Í nýlegri skýrslu Nordic Welfare Center kemur fram að Íslensk ungmenni nota nikótínpúða mest allra á Norðurlöndunum en reykja áberandi minnst. Þess vegna er sérstaklega slæmt að sjá unga vinsæla tónlistarkonu nota reykingar sem sjálfsagðan hlut í sínu efni,“ segir hann.
Þó nokkrar umræður hafa spunnist um reykingar Bríetar undir færslum hennar á Facebook.
Á fimmtudag í síðustu viku birtist til dæmis myndband þar sem hún var að auglýsa fatnað til sölu. Stóð hún upp við ljósastaur í Mjóddinni þar sem hún sást púa smávindil fyrir neðan skilti þar sem fram kom að reykingar væru bannaðar. Fjölmargir lögðu orð í belg við myndbandið, en hér má sjá nokkrar athugasemdir:
„Ferlega svekkjandi að sjá þessa glæsilegu konu benda fólki sem vill vera cool – að til þess að vera cool þurfi að slaka á með góðum smók.“
„Af hverju í ósköpunum er hún reykjandi í auglýsingunni, klárlega ekki til fyrirmyndar fyrir unga fólkið okkar.“
„Þarna missti ég allt álit á annars flottri ungri konu.“
„Mætti sleppa vindlingnum. Ekkert smart við reykingar. En tónlistin er góð og listakonan frábær.“
