

Ahmed, sem er 43 ára Sýrlendingur og tveggja barna faðir, slasaðist alvarlega eftir að hafa verið skotinn fimm sinnum í öxl og handlegg. Myndband af því þegar hann laumaðist aftan að byssumanninum og náði af honum byssunni hefur vakið gríðarlega athygli.
DV sagði í gær frá því að blásið hefði verið til söfnunar fyrir hann á vefnum GoFundMe. Er skemmst frá því að segja að í morgun höfðu tæpar 300 milljónir króna safnast fyrir hann.
Sjá einnig: Magnaðir hlutir hafa gerst eftir að hetjan í Ástralíu var nafngreind
Ahmed dvelur á St. George-sjúkrahúsinu í Sydney þar sem hann hefur meðal annars gengist undir aðgerðir vegna þeirra meiðsla sem hann hlaut.
Hann ræddi við fréttamann TRT World þar sem hann lá í sjúkrarúmi sínu og sagðist þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið frá áströlsku þjóðinni og fleirum. Þá sagði hann að aðeins Allah vissi hvað hann væri að ganga í gegnum. Daily Mail birti meðfylgjandi myndband á vef sínum í morgun:
„Ég bið móður mína, ljós augna minna, að biðja fyrir mér. Biddu fyrir mér, móðir mín,“ sagði hann.
Sam Issa, fyrrverandi innflytjendalögmaður Ahmed, sagði við The Australian í gær að meiðslin væru alvarlegri en talið var í fyrstu.
„Hann hefur gengist undir nokkrar aðgerðir og er með fimm skotsár. Þetta eru alvarleg meiðsl – miklu alvarlegri en greint hefur verið frá,“ sagði Issa og bætti við að Ahmed væri ekki með neina tilfinningu í hægri handleggnum og óttast væri að kúlurnar hefðu hitt mikilvægar taugar. Er jafnvel óttast að læknar þurfi að fjarlægja handlegginn.
„En hann segir mér að hann myndi gera þetta aftur. Sársaukinn er samt farinn að taka sinn toll og honum líður alls ekki vel. Hetjan okkar á mjög erfitt um þessar mundir,“ bætti hann við.
Fimmtán saklausir einstaklingar létust í skotárásinni á sunnudag, þar á meðal tíu ára stúlka. Þá slösuðust yfir 40 manns. Árásin var framin á ljósahátíð gyðinga en árásarmennirnir eru taldir hafa tengst ISIS-hryðjuverkasamtökunum.