

Rithöfundurinn Stefán Máni Sigþórsson segir það úrkynjun og pólitískan rétttrúnað að bjóða fólki „gleðilega hátíð“. Þetta fullyrti hann á samfélagsmiðlinum X um helgina í færslu sem hefur vakið nokkra athygli.
„Gleðilega hátíð“ er úrkynjað og meðvirkt pc newspeak. Það er gleðileg jól,“ skrifaði rithöfundurinn. Aðrir netverjar voru þó ósammála og bentu á að Íslendingar hafa boðið hverjum öðrum gleðilega hátíð í rúmlega öld. Líklega sé Stefán Máni hér að flytja inn deilumál frá Bandaríkjunum, en þar óska menn hverjum öðrum gleðilegrar kristsmessu (e. christmas) sem sumum finnst ekki viðeigandi í öllum tilvikum þar sem orðið nær aðeins yfir kristna en ekki trúlausa og fólk af öðrum trúarbrögðum sem samt fagna vetrarsólstöðum með einum eða öðrum hætti.
„Getur þú fundið heimild fyrir því að einhver hafi nokkurn tímann móðgast yfir orðinu jól eða lagt það til að hátíð sé frekar notað til að móðga ekki. Því það hefur aldrei gerst. Þetta er eitthvað sem þú ímyndar þér,“ skrifar einn netverji til rithöfundarins. Stefán Máni svaraði um hæl með því að birta ársgamla frétt um að Uppsalaháskóli í Svíþjóð hafi boðið fólki „góða helgi“ frekar en „gleðilegra jóla“. Stefáni Mána var þá bent á að dæmið sem hann vísaði til væri ekki íslenskt.
„Gleðilega hátíð“ er úrkynjað og meðvirkt pc newspeak.
Það er gleðileg jól ⭐️❤️🌲
— Stefán Máni (@Stefan_Mani_) December 13, 2025
Rithöfundurinn Andri Snær Magnason sakaði kollega sinn um „innflutt tuð“: „Þetta er innflutt tuð. Í USA: Happy Holidays sem er eiginlega Gleðilegt frí! Gleðilega hátíð er aldagamalt.“
Andri Snær birti svo skjáskot úr Unga Íslandi frá árinu 1922 máli sínu til stuðnings. En þar segir: „Og svo koma jólin. Gleðileg jól! Gleðilega hátíð, hljómar þá á hvers manns vörum.“
Stefán Máni lét sér þó ekki segjast. „Þú átt við að Gleðileg hátíð er innfluttur frasi, Happy holidays. Sem er trúlega rétt hjá þér. Og sá frasi er notaður til að ná yfir jól og hanukka, kristna og gyðinga.“
Þá benti Andri Snær á að frasinn Gleðileg hátíð sé ævaforn. „Sbr. „Hátíð ber að höndum ein“ og eiginlega hátíðlegra en jólahald er síðan eldra en kristni. Á timarit.is er gleðilega átíð líka mikið notað 1. maí kringum 1950. Í USA eru menn að forðast Christ í christmas.“
Fleiri létu rithöfundinn heyra það: „Þetta er dæmi um panikk sem byggist á engu. Þessi frasi hefur verið notaður heillengi, löngu áður en fólk fór að taka tillit til annarra trúarhópa en kristinna. Þetta veist þú. Þetta tweet er því bara til að stuða og sundra. Engu að síður; gleðilega hátíð og gleðileg jól.“
Einn netverji minntist föður síns og sagði að hann hefði seint farið að vanda mál sitt í samræmi við pólitískan rétttrúnað. Hann notaði hátíð til jafns við jól. „Gamla fólkið í minni ætt hefur verið að nota þetta síðan löngu áður en það var sjónvarp á fimmtudögum.“
Aðrir minntu á að orðið jól er ekki það sama og orðið kristsmessa sem er notað í enskumælandi löndum. Jól kemur úr heiðni.
„Þetta er grín er það ekki? Í fyrsta lagi er kveðjan „gleðilega hátíð“ gömul og gild. Í öðru lagi er orðið jól upphaflega nafnið á heiðinni hátíð. Nákvæmlega enginn er að biðja fólk um að segja gleðilega hátíð frekar en gleðileg jól. Þetta eru ekki Bandaríkin.“
„Það hefur bara ekkert með „happy holidays“ menningarstríðs skrípaleikinn að gera, tengist pc ekki á nokkurn hátt.“
„Jól er ekki kristið orð heldur heiðið. Hélt þú vissir það verandi rithöfundur and all. Gleðilega hátíð og gleðileg jól hefur verið notað jöfnum höndum í árhundruðir.“
Stefán Máni tók þá fram að kannski hafi gleðileg hátíð einu sinni táknað eitt en nú tákni það annað.
„Gleðilega hátíð er gömul kveðja, notuð áður fyrr til að óska fólki gleðilegra jóla. Í dag aftur á móti er kveðjan mest notuð af fólki sem vill ekki móðga trúlausa/ekki kristna eða hefur eitthvað á móti kristni eða gamaldags jólum. Gleðileg jól.“
Orðið jól kemur úr heiðnum sið og var þá notað um miðsvetrarblót. Síðar þegar kristni barst til Norðurlanda og fæðingar Krists var minnst á svipuðum tíma færðist heitið á heiðnu hátíðinni yfir þá kristnu. Uppruni orðsins er umdeildur en ein elsta skýringin er í Ágripi af Noregskonunga sögum: „En Óðinn heitir mörgum nöfnum. Hann heitir Víðrir, og hann heitir Hárr og Þriði og Jólnir, og var af Jólni jól kölluð.“ Í Flateyrarbók segir að nafnið Jólnir sé hins vegar dregið af jólunum.
Engar samtímaheimildir eru til um heiðið jólahald en ein elsta vísbendingin er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja „drekka jól úti“ og „heyja Freys leik“ sem virðist annars vegar merkja veislu og hins vegar einhvers konar ástarleik. Oft er talað um að blóta til árs og friðar á jólum. Sagnir sem eiga að gerast á heiðnum tíma minnast varla á jól nema í sambandi við veisluhald. Í fornnorskum lögum var mönnum skylt að brugga og eiga öl til jóla. Ástæðan fyrir því var sú að konungar ferðuðust oft milli þegna um jólaleytið og þágu hjá þeim veislu. Samkvæmt Vísindavefnum bendir allt til þess að menn hafi blátt áfram komið saman á jólum til að éta, drekka og vera glaðir.