

Maður á áttræðisaldri hefur verið ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa í vörslu sinni vopn sem hann hafði ekki leyfi fyrir auk þess að geyma ekki vopnin í sérútbúnum skáp á þáverandi heimili hans í Rangárþingi. Meðal vopnanna var lásbogi sem er ólöglegt að eiga.
Það er embætti lögreglustjórans á Suðurlandi sem leggur ákæruna fram sem birt hefur verið í Lögbirtingablaðinu og því hefur væntanlega ekki tekist að birta manninum ákæruna.
Maðurinn er íslenskur og er nú skráður til heimilis í Reykjanesbæ. Samkvæmt ákærunni framdi maðurinn vopnalagabrot með því að hafa, í maí 2024 og um tíma fram til þess, í geymslu á þáverandi dvalarstað sínum í Rangárþingi, verið eigandi að og haft í vörslum sínum án tilskilins leyfis loftriffil og lásboga, sem hann hafi ekki geymt í sérútbúnum vopnaskáp og þannig ekki tryggt að óviðkomandi næði ekki til vopnanna, en lögregla hafi fengið vopnin afhent og haldlagt þau.
Samkvæmt ákærunni varða umrædd brot við nokkrar greinar vopnalaga en meðal þeirra er bann við að flytja lásboga til landsins og hafa þá í sinni vörslu.
Allt að fjögurra ára fangelsi liggur við brotum á vopnalögum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
Mál mannsins verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í janúar næstkomandi en mæti hann ekki fyrir dóm má búast við að það verði metið sem ígildi játningar.