

Það er alltaf heiðríkja yfir Hlaðgerðarkoti, segja vistmenn og aðrir sem hafa náð þar bata. Einhver sérstakur andi ríkir innandyra og nær að opna hjörtu manna. En er ekki sagt að leiðin að hjarta mannsins liggi í gegnum magann? Það er nokkuð öruggt að svo er og hollur matur á ævinlega þátt í að fólk nái sér af öllum sjúkdómum. Björn Gunnar Rafnsson er annar tveggja kokka í Hlaðgerðarkoti og hann þekkir bæði mátt matar og andlegrar fæðu í leiðinni að bata frá fíknisjúkdómum.
Björn Gunnar er í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í jólablaði Samhjálpar.
Þekkir þú sjálfur glímuna við fíknisjúkdóma af eigin raun?
„Heldur betur,“ segir hann. „Ég náði tveimur árum 8. nóvember síðastliðinn. Í yfir þrjátíu ár var ég í neyslu og í meðferðarbrasi í tuttugu ár. Ég var fjórtán ára þegar ég byrjaði.“
Björn Gunnar náði árangri í meðferð í Hlaðgerðarkoti og þá liggur beinast við að spyrja hvað það var sem skipti sköpum fyrir hann?
„Það var bara eitthvað í loftinu, maður fann það um leið og maður kom hérna inn. Ég hafði farið áður inn á Teig, Vík og Staðarfell, en það var eitthvað við andrúmsloftið hér. Eins og það að byrjað sé á að biðja fyrir manni þegar maður kemur hingað inn. Ég var í kaþólskum skóla, Landakotsskóla, og þar var trúnni rosalega mikið troðið ofan í mann, eða réttara sagt trúarbrögðunum. Í þeim skóla gerðust mjög vondir hlutir í nafni trúarinnar, eins og flestir vita, enda mikið verið talað um það í fjölmiðlum. Ég útskrifaðist úr grunnskóla með mikla óbeit á Guði og trúarbrögðum. Ég eyddi löngum stundum á YouTube í leit að myndböndum til að afsanna tilvist Guðs.
Svo kom ég hingað. Það var í Covid og á móti mér tók kona að nafni Rakel. Hún er íslensk en bjó í Bandaríkjunum og leiddi hér samkomu. Ég fór að tala við hana um óbeit mína á Guði og hún stoppaði mig og sagði: „Af hverju ertu að rugla saman trú og trúarbrögðum?“ Ég spurði á móti: „Hvað meinarðu?“ Því ég hélt að þetta væri sami hluturinn. Þá loks fattaði ég eftir tuttugu ár inn og út úr tólf spora samtökum að í þeim megum við skilgreina okkar eigin Guð. Ég er á því að trúarbrögð séu mannanna verk. Við höfum ekki vitsmuni til að skilgreina Guð svo ég reyni það ekki einu sinni.“

Björn hefur mikinn áhuga á mat og næringu. Ertu lærður matreiðslumeistari?
„Nei, ég kláraði samninginn á sínum tíma en fór aldrei í skólann. Ég dreif aldrei svo langt. Ég kynni mér mikið matargerð á YouTube og netinu. Ég var á samning hjá Icelandiair Hotels í mörg ár og lærði mikið þar. Ég var líka kokkur á sjó og það var góður skóli.“
En þegar þú útskrifaðist úr Hlaðgerðarkoti hvar fórstu þá að vinna?
„Ég hef verið öryrki frá árinu 2018 vegna ýmissa líkamlegra kvilla,“ segir hann. „Ég byrjaði hér í maí og er að vinna í fyrsta skipti frá árinu 2018. Þetta er 75% vinna og hentar mér mjög vel. Hér er hægt tempó og ég kem úr umhverfi þar sem er rosalega mikið álag, að kokka á sjó og í stóru atvinnueldhúsi. Hér líður mér hins vegar ekki eins og ég sé í vinnu. Mér finnst æðislegt að vera hérna og elska.“
Á móti Birni starfar Davíð Hanssen matreiðslumaður og þeir tveir sjá til þess að fólkið í Hlaðgerðarkoti er aldrei svangt. Telur þú að það sé eitthvert samband milli matar og bata frá fíknisjúkdómum?
„Algjörlega,“ segir Björn með áherslu. „Ég upplifði það í öllum mínum meðferðum að ef maturinn er ekki góður þá var húsið ekki gott. AA-bókin var skrifuð árið 1939 og í henni stendur að maður eigi að hafa sælgæti við höndina því það dregur mikið úr löngunum. Það dregur úr fíkn. Svo er sagt: Það er betra að vera feitur en fullur.“
Hann hlær við en heldur svo áfram. „Vegna þess að maður þarf að breyta öllu lífi sínu, óbreyttur maður fer aftur að drekka, þá er partur af því mataræði og hreyfing. Það þarf að búa sér til nýja rútínu, skapa sér holla siði og nýjar venjur. Alls ekki vera í hamborgurum og frönskum alla daga því þannig ruslfæði er svo neyslutengt. Það að snúa mataræðinu við er klárlega partur af batagöngunni.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
„Ég segi alltaf ítalskan mat. Svo finnst mér líka skipta miklu máli, og ég sé það bara hér, að þegar ég er með eitthvað sem allar mömmur elduðu á öllum heimilum þá er fólk óskaplega ánægt með það. Eins og að bjóða upp á kálböggla eða kjötfars, þá grípur fólk andann á lofti og segir: „Ó my god, þetta er geðveikt.“ Þetta eru réttir sem það hefur kannski ekki smakkað í tuttugu ár eða meira. Hið sama má segja um steikta ýsu í raspi eða soðna ýsu. Þetta er matur sem fólk í neyslu hefur ekki borðað ævalengi. Það fer enginn að steikja sér fisk í raspi eða sjóða ýsu þegar hann er kafi í neyslu.“

Hvernig skipuleggur þú eldhúsið, er gerður matseðill viku fram í tímann?
„Aðallega í huganum,“ segir hann og brosir. „Við pöntum á mánudögum og fáum vörurnar á þriðjudögum. Mér finnst alltaf best að mæta að morgni og vita hvaða hráefni ég ætla að elda en hef ekki hugmynd um hvernig. Svo kemur það alltaf. Mér finnst það langbest.“
Þið eruð með hænur hér í Hlaðgerðarkoti og eruð að rækta eigin grænmeti, hvernig gengur það?
„Alveg frábærlega. Í fyrra kom ekki upp arða vegna þess að sumarið þá var svo lélegt. En í ár var þetta eins og arfi, það var ótrúleg spretta. Ég gerjaði þess vegna fullt af grænmeti í krukkur svo það myndi ekki skemmast, svo ber ég þar fram með alls konar réttum.“
Þar sýnir Björn Gunnar ráðdeild og hagsýni fyrir svo utan að súrsað grænmeti er einstök hollustuvara, byggir upp ónæmiskerfið og er afskaplega gott fyrir þarmaflóruna.
Björn Gunnar á eina átta ára stelpu og kærustu. Hann horfir björtum augum fram á veginn og það er auðheyrt að honum er mikilvægt að rækta batann.
„Ég reyni að passa mataræðið,“ segir hann. „Hreyfingin er ekki meira en göngutúrar, ég ræð ekki við meira. Ég starfa líka mikið fyrir samtökin. Ég fer í fangelsin og inn á stofnanir, held fundi og er að sponsa. Líf mitt snýst mikið um samtökin.“