

Maður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann var stöðvaður af tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með á annað þúsund töflur af lyfseðilsskyldum lyfjum en maðurinn hélt því fram að lyfin væru til eigin nota. Eftir að hann var stöðvaður af tollgæslunnni má segja að maðurinn hafi gengið berserksgang reyndi hann meðal annars að bíta tollvörð en án árangurs en tókst þó að kýla hann.
Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á 471 stykki af Alprazolam Mylan 2 mg (virkt efni alprazólam), 200 stykkjum af læknislyfjum með virka efninu díazepam, 184 stykkjum af OxyContin 80 mg (virkt efni oxýkódon), 326 stykkjum af Rivotril 2 mg (virkt efni klónazepam) og 10 stykkjum af Stilnoct 10 mg (virkt efni zolpidem) ætluðum til dreifingar hér á landi í ágóðaskyni en ávana- og fíknilyfin flutti hann til Íslands í farangri sínum þegar hann kom til landsins með flugi frá Alicante á Spáni til Keflavíkurflugvallar.
Hann var einnig ákærður fyrir tolla- og lyfjalagabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á 111 stykkjum af lyfinu Quetiapin Actavis 20 mg (virkt efni quetíapín), ætluðum til dreifingar hér á landi í ágóðaskyni en lyfið flutti ákærði til Íslands í farangri sínum þegar hann kom til landsins með þessu sama flugi án þess að fyrir lægi heildsöluleyfi Lyfjastofnunar, án þess að hafa lyfseðil eða lyfjaávísun fyrir lyfjunum í læknisfræðilegum tilgangi og án þess að gera tollgæslu grein fyrir lyfjunum við komuna til landsins.
Loks var maðurinn ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa kýlt tollvörð sem var við skyldustörf í flugstöðinni, í vinstri síðu með krepptum hnefa, og reynt að bíta hann.
Fyrir dómi játaði maðurinn hvað varðaði fyrsta ákæruliðinn að hafa komið með lyfin til landsins en neitaði að það hefði verið til dreifingar í ágóðaskyni. Hann neitaði að hafa ráðist á tollvörðinn en sagðist hafa glefsað frá sér í varnarskyni.
Tollgæslan stöðvaði manninn við komuna til landsins í febrúar 2024. Sagðist hann hafa fengið lyfin frá lækni í Alicante og hafði meðferðis fimm lyfseðla þaðan. Æstist maðurinn nokkuð við afskiptin og töldu tollverðir hann undir áhrifum. Hald var lagt á lyfin þar sem maðurinn gat ekki framvísað lyfseðlum fyrir þeim nema að hann fékk að halda eftir skammti til eigin nota. Róaðist þá maðurinn en æstist aftur og skvetti úr vatnsbrúsa, kýldi í vegg, kastaði sér inn í gegnumlýsingarvél og hoppaði á vigt. Kýldi hann síðan tollvörð í síðuna og var hann loks færður í handjárn og lögreglan kölluð til sem fór með manninn og lyfin.
Við skýrslutöku var maðurinn margsaga um hvaðan hann fékk lyfin. Fyrst að það hefði verið á Íslandi en síðan sagðist hann hafa fengið hluta á Spáni. Sagðist hann ekki vita hvað hann hefði verið með mikið af lyfjum. Þetta væru svefnlyf og kvíðastillandi lyf. Hann hafi ætlað að nota þau öll sjálfur. Viðurkenndi hann að hafa að glefsað að tollverðinum en neitaði að hafa kýlt hann. Sagðist maðurinn hafa brugðist svona við þar sem tollverðir hefðu haldið mjög fast í sig.
Fram kemur í dómnum að maðurinn hefur átt við geðræn vandamál og fíkn að stríða. Geðlæknir sagði í matsgerð manninn hafa verið færan um að stjórna gjörðum sínum umræddan dag. Hann hafi bersýnilega verið undir áhrifum vímuefna en í kjölfarið verið til meðferðar á geðdeild Landspítalans. Telja yrði því að á verknaðarstundu hefði ástand hans verið þannig að hann tengdi ekki saman gjörðir sínar og brot með vissu enda væri ítrekað lýst innsæisleysi hans í ástand sitt í sjúkragögnum í kjölfarið. Hafi ástand hans þá verið þannig að refsing bæri ekki árangur. Maðurinn væri enn veikur en skildi nú tengsl brots við refsingu og því myndi nú slíkt bera árangur. Varla hafi verið um skipulegan innflutning að ræða heldur fremur hendingu þar sem ljóst væri að maðurinn hefði sjálfur verið að misnota efnin.
Maðurinn fullyrti enn fyrir dómi að lyfin hefðu verið til eigin nota. Hann hafi ekki ætlað að selja þau en hafi vissulega selt fíkniefni á yngri árum. Hann kynni að hafa kýlt tollvörð en myndi ekki eftir því. Hann hefði fengið öll lyfin á Spáni þar sem hann hefði verið í mikilli neyslu.
Tollvörðurinn sagði fyrir dómi að höggið hefði ekki verið fast og hann þar að auki í varnarvesti. Maðurinn hafi síðan í kjölfarið reynt að bíta hann en þá hafi tollverðir ekki verið með hann í tökum eins og hann héldi fram. Annar tollvörður hafi náð að koma í veg fyrir að maðurinn næði að bíta hann. Sá tolllvörður sagðist fyrir dómi hafa náð að ýta við manninum þannig að hann náði ekki að bíta kollega hans.
Geðlæknirinn staðfesti matsgerð sína fyrir dómi og sagði það ekki skaðlegt fyrir manninn að sitja í fangelsi.
Héraðsdómur Reykjavíkur segir í sinni niðurstöðu að sá framburður mannsins að öll lyfin hafi verið til eigin nota sé ekki ótrúverðugur og matsgerð geðlæknisins renni stoðum undir það og það sé ekkert sem sanni að þetta sé rangt. Sakfella verði þó manninn fyrir að koma með efnin til landsins og líka í ljósi þess að hann hafi viðurkennt innflutninginn. Hvað varðar síðasta ákæruliðinn um árás á tollvörðinn segir dómurinn að framburður tollvarða, sem komu fyrir dóm, sé trúverðugur en framburður mannins um þetta verið á reiki. Alllir hafi tollverðirnir borið að maðurinn hafi reynt að bíta einn þeirra og sakfella verði hann því fyrir það.
Dómurinn segir að miðað við matsgerð geðlæknisins sé maðurinn sakhæfur. Hann eigi sakaferil að baki en hafi leitað sér aðstoðar við fíkn sinni og geðrænum veikindum. Þar sem það sé niðurstaða geðlæknisins að þegar hann framdi umræddan verknað hafi maðurinn ekki verið fær um að tengja saman gjörðir sínar og brot enda hefði hann skort innsæi í ástand sitt verði ekki talið að brot hans hafi verið líkt því eins refsiverð og venjulegt sé um sams konar brot.
Á þeim grundvelli var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.