

Nú hafa sérfræðingar Porperty Finder varpað ljósi á þau lönd sem talin eru skara fram úr þegar kemur að því að eiga og reka orlofshús. Það kemur kannski fáum Íslendingum á óvart að sjá hvaða land er í 1. sæti á listanum.
Spánn er afar vinsæll áfangastaður hjá Evrópubúum, sér í lagi á meðal Breta og Norðurlandabúa. Landið skoraði hæst af öllum löndum og er það ekki síst að þakka ríkri menningu, góðu aðgengi og aðlaðandi lífsstíl. Samkvæmt samantekinni er Spánn besti kosturinn fyrir áhugafólk um menningu, listir og arkitektúr og er bent á að 50 staðir séu skráðir á heimsminjaskrá UNESCO. Og það sem skiptir kannski mestu máli er að þú færð yfirleitt mikið fyrir peninginn á Spáni þegar kemur að fasteignum.
Eins og Spánn er Frakkland afar aðlaðandi land þegar kemur að menningu og listum. 54 staðir í Frakklandi eru á heimsminjaskrá UNESCO og þar er að finna mörg af flottustu listasöfnum í heimi. Það sem dregur Frakkland þó niður, ef miðað er við Spán, er að það er eitt dýrasta land Evrópu. Þar af leiðandi er það einkum talið henta kaupendum sem eru í hópi hinna tekjuhærri.
Portúgal nýtur vaxandi vinsælda meðal þeirra sem vilja eignast orlofshús erlendis. Sólardagar þar eru yfir 300 talsins, lífið þykir afslappað og fasteignaverð er vel samkeppnishæft í samanburði við önnur lönd. Staðsetning landsins, rík menning og löng saga gera Portúgal að einum mest aðlaðandi áfangastað í heiminum fyrir erlenda kaupendur orlofseigna.
Furstadæmin eru kannski ekki ofarlega á lista Íslendinga, enda langt að fara þangað. Það sem telst furstadæmunum til tekna er að þar eru átta alþjóðaflugvellir, sex innlend flugfélög og aðgengi er því mjög auðvelt fyrir þá sem þurfa ekki að ferðast langt. Húsnæði er þó ekki það ódýrasta, en það sem kemur á móti er að erlendir eigendur þurfa ekki að greiða neina skatta af fasteignum sínum.
Samkvæmt úttekt Property Finder eru Bandaríkin ekki þau samkeppnishæfustu í verði, að minnsta kosti ekki þegar kemur að vinsælum ferðamannastöðum innanlands. Kaupendur fá þó yfirleitt mikið fyrir peninginn þegar þeir kaupa fasteign utan stærstu borganna. Bandaríkin hafa ákveðið forskot á önnur lönd fyrir þá sem leita að orlofshúsi með góðu verðgildi, aðgengi og fjölbreytni.