fbpx
Mánudagur 01.desember 2025
Fréttir

Vilhjálmur harmar ákvörðun Hvalfirðinga og segir að nú þurfi þeir að borga Akranesi hundruð milljóna króna – „Það er einfalt jafnræðismál“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 1. desember 2025 10:00

Vilhjálmur harmar ákvörðun Hvalfirðinga.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verkalýðsforkólfurinn Vilhjálmur Birgisson er reiður Hvalfirðingum fyrir að hafna beiðni Akraneskaupstaðar um óháða úttekt á sameiningu. Hvalfirðingar noti suma þjónustu Akranes án þess að borga fyrir hana og því séu Skagamenn að niðurgreiða þjónustuna fyrir þá.

Á fundi þann 26. nóvember síðastliðinn hafnaði sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar beiðni Akraneskaupstaðar um að fá óháðan aðila til að gera faglega úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna tveggja.

„Þetta var ekki tillaga um sameiningu heldur upphafspunktur upplýstrar umræðu byggðrar á staðreyndum í stað tilfinninga,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og SGS, í færslu á samfélagsmiðlum. „Það hefði verið skynsamlegt, gagnsætt og til hagsbóta fyrir íbúa beggja sveitarfélaga að fá slíka greiningu svo hægt væri að meta raunverulegan ávinning eða ókosti sameiningar.“

Segist hann taka skýrt undir með bæjarráði Akraness, deili sjónarmiðum þess og harmi því að Hvalfirðingar hafi hafnað úttektinni.

Hvalfjarðarsveit er í norðanverðum Hvalfirði og þar búa rúmlega 800 manns. Á Akranesi búa um 8.500 manns. Þrýstingur hefur verið á smærri sveitarfélög að sameinast stærri á undanförnum árum, meðal annars frá innviðaráðuneytinu. En eftir því sem fleiri verkefni hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga eiga þau smæstu erfiðara með að sinna þeim. Eru mörg sveitarfélög algjörlega háð öðrum um aðkeypta þjónustu.

Borga ekki krónu fyrir

Vilhjálmur bendir á að Hvalfirðingar hafi notið þjónustu á Akranesi. Meðal annars íþróttaþjónustu.

„Á sama tíma og upplýsingaleit er hafnað er á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar tekið skýrt fram að íbúar sveitarfélagsins hafi fullan aðgang að íþróttastarfi á Akranesi,“ segir Vilhljálmur og birtir skýringarmynd sem sýnir að íbúar geti stundað æfingar og keppnir hjá öllum aðildarfélögum ÍA.

„Þetta er umfangsmikið íþrótta- og afreksstarf sem byggir á aðgengi að mannvirkjum sem kosta skattgreiðendur á Akranesi upp undir einn milljarð króna á ári í rekstri. Samt greiðir Hvalfjarðarsveit ekki eina einustu krónu til Akraneskaupstaðar fyrir rekstur íþróttamannvirkja og greiðir aðeins sex milljónir til ÍA,“ segir Vilhjálmur. „Miðað við íbúahlutfall, 10%, ætti greiðsla að vera um 100 milljónir. Munurinn er verulegur, kerfislægur og fellur beint á herðar Akranesinga.“

Yfirfara allt

Þetta eigi við um fleira, svo sem félagsstarf eldri borgara, þjónustu Fjöliðjunnar, Búkollu, ruslahauga og fleira. Innviðir sem Akranes byggir upp og rekur með skattfé íbúa en Hvalfjarðarsveit greiðir ekki fyrir þátttöku sinna íbúa.

„Ég styð því af fullri sannfæringu þá nálgun bæjarráðs Akraness að nú verði farið í að taka saman alla samninga, þar sem greiðslur, kostnaðarskipting og raunverulegur rekstrarkostnaður verði borinn saman og endurskoðaður. Það er rétta leiðin, ábyrg og réttlát gagnvart íbúum Akraness,“ segir Vilhjálmur. „Ef sveitarfélag vill hafna jafnvel því að kanna mögulega sameiningu með gagnsæi og fagmennsku þá verður að minnsta kosti að tryggja að það greiði sanngjarnt endurgjald fyrir þá þjónustu sem það nýtir. Það er ekki á ábyrgð Akranesinga að niðurgreiða rekstur fyrir annað sveitarfélag, allra síst fyrir sveitarfélag sem vill ekkert með Akranes hafa.“

Einfalt jafnræðismál

Að lokum segist hann virða þá ákvörðun Hvalfirðinga að hafna úttektinni. En sú ákvörðun kalli á að þeir borgi raunkostnað fyrir alla þjónustu sem nýtt er á Akranesi.

„Það er einfalt jafnræðismál, felur í sér ábyrgð gagnvart báðum sveitarfélögum og er lágmarksforsenda sanngjarns samstarfs fram á við,“ segir Vilhjálmur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt