fbpx
Mánudagur 01.desember 2025
Fréttir

Trump segir Maduro og eiginkonu hans að yfirgefa Venesúela strax

Ritstjórn DV
Mánudaginn 1. desember 2025 10:30

Donald Trump Bandaríkjaforseti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa veitt forseta Venesúela, Nicolas Maduro, afarkosti og hvatt hann til að flýja landið ásamt eiginkonu sinni eða mæta afleiðingunum.

Lítill vinskapur er á milli Bandaríkjanna og Venesúela, en Bandaríkjamenn hafa aukið viðbúnað sinn undan ströndum landsins undanfarnar vikur. Hefur orðrómur verið á kreiki um að Trump gæti hugsað sér að ráðast inn í landið og koma Maduro frá völdum með góðu eða illu.

Miami Herald hefur eftir heimildarmanni sínum að Bandaríkjastjórn hafi rætt við stjórnvöld í Caracas í gegnum síma á föstudag þar sem fyrrnefndir afarkostir voru settir fram.

Segir heimildarmaður Miami Herald að samtalið hafi fljótt farið í öngstræti þar sem ljóst var að afstaða Bandaríkjanna annars vegar og Venesúela hins vegar var mjög ólík.

Eru yfirvöld í Washington sögð hafa lagt áherslu á að Maduro, eiginkona hans og sonur, gætu yfirgefið landið á „öruggan hátt“ ef hann myndi stíga tafarlaust til hliðar.

Heimildarmaður sem þekkir til samtalsins segir að Maduro hafi beðið Trump um alþjóðlega sakaruppgjöf sem Trump hafnaði. Í kjölfarið hafi Maduro óskað eftir því að fá að halda stjórn á her Venesúela gegn því að boða til frjálsra kosninga. Þessari hugmynd er Trump einnig sagður hafa hafnað.

Um ellefu bandarísk herskip eru nú á hafsvæði skammt frá ströndum Venesúela en í þeim eru 15 þúsund hermenn. Hefur Bandaríkjaher gert árásir á meinta fíkniefnasmyglara frá Venesúela undanfarnar vikur, en talið er að um 80 manns hafi látist í þeim árásum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt