fbpx
Föstudagur 07.nóvember 2025
Fréttir

Framkvæmdastjóri hjá DAS svarar Jóhanni – „Ef íbúðin er afþökkuð er hún boðin næsta umsækjanda“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 7. nóvember 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eftirspurnin eftir íbúðum fyrir eldri borgara hefur aukist til muna og biðlistar hafa lengst í kjölfarið. Þetta er staða sem við hjá DAS-íbúðum þekkjum vel,“ segir Þröstur V. Söring framkvæmdastjóri DAS-íbúða í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar svarar hann skrifum Jóhanns L. Helgasonar, eldri borgara, sem sagði farir sínar ekki sléttar í aðsendri grein í blaðinu í gær. Lýsti hann því að hann og eiginkona hans hefðu fengið skemmtilegan tölvupóst þann 3. nóvember frá DAS þar sem þau höfðu átt inni umsókn um íbúð til nokkurs tíma. Um væri að ræða 76 fermetra íbúð og leiguverð væri 306.707 krónur á mánuði.

„Svo komu ýmsar aðrar gagnlegar staðlaðar upplýsingar varðandi íbúðina og ýmsar kvaðir bæði fyrir leigjendur og skyldur leigusala. Allt gott og blessað,“ sagði Jóhann og bætti við að neðst í upptalningunni hafi komið skrýtin setning sem hljóðaði svo:

„Fyrstur kemur fyrstur fær!“

Sjá einnig: Jóhann hélt hann hefði fengið íbúðina en svo kom tölvupósturinn daginn eftir

Jóhann kvaðst hafa svarað strax að þau myndu þiggja íbúðina en daginn eftir hafi komið tölvupóstur þar sem fram kom að einn hefði verið á undan honum að svara. Ef viðkomandi tæki ekki íbúðina yrði Jóhann látinn vita. Í grein sinni sagðist hann vera svekktur og þau hjónin hissa á þessu úthlutunarferli.

„Var hann á undan mér að svara tölvupóstinum eða var hann á undan mér í umsóknarferlinu? Ef svo hefði verið hefði ég aldrei átt að fá þessa tilkynningu um íbúðina í upphafi,“ sagði Jóhann og tók fram að ekki ætti að fara á milli mála hver geti fengið íbúð úthlutaða. Þetta þurfi að vera á hreinu til að valda ekki fólki fyrst gleði en síðan vonbrigðum nokkrum klukkustundum síðar.

Í grein sinni í Morgunblaðinu útskýrir Þröstur að DAS-íbúðir séu óhagnaðardrifið leigufélag sem þjónar eldri borgurum í sjálfstæðri búsetu. Félagið á 350 íbúðir á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og segir Þröstur að markmiðið sé að gera vel við viðskiptavini, bera virðingu fyrir þörfum þeirra og reyna að mæta þeim á þeirra forsendum.

„Á biðlistum okkar eru umsækjendur með fjölbreyttar óskir og þarfir. Sumir vilja íbúðir í nálægð við fjölskyldu eða heilsugæslu, aðrir leggja áherslu á að vera í samfélagi með öðrum á svipuðum aldri. Þess vegna höfum við unnið markvisst að því að fjölga valkostum – bæði hvað varðar stærð og staðsetningu íbúða,“ segir hann og útskýrir svo úthlutunarferlið.

„Þegar íbúð losnar sendum við út tölvupóst á afmarkaðan hóp umsækjenda sem sótti um á svipuðum tíma. Sá eða sú sem hefur fyrst samband fær tækifæri til að skoða íbúðina og ákveða hvort hún henti. Ef íbúðin er afþökkuð er hún boðin næsta umsækjanda í réttri röð,“ segir Þröstur sem tekur fram að lokum að þetta verklag byggist á jafnræði og virðingu fyrir því að aðstæður fólks geti breyst verulega á þeim tíma sem biðin varir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Enn deilt um Blóðberg: Bók með lýsingum á hópnauðgun skyldulesefni hjá ungmennum

Enn deilt um Blóðberg: Bók með lýsingum á hópnauðgun skyldulesefni hjá ungmennum
Fréttir
Í gær

Er þetta ógreint vandamál íslenskunnar? – „Ekkert sem kallar til mín“

Er þetta ógreint vandamál íslenskunnar? – „Ekkert sem kallar til mín“