

Greint er frá málinu í Morgunblaðinu í dag og þar segir að kærandi í málinu sé fyrrverandi eiginmaður saksóknarans.
Konan er sögð hafa játað brot sín við yfirheyrslur hjá lögreglu en síðan dregið játninguna til baka þar sem hún bar við erfiðu andlegu ástandi. Konan er enn í starfi hjá embættinu og segir í frétt Morgunblaðsins að Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hafi ekkert aðhafst í málinu.
Í fréttinni kemur fram að lögregla hafi haft málið til rannsóknar sem og rannsókn á atviki þar sem saksóknarinn er sakaður um að hafa beitt móður kæranda og son líkamlegu ofbeldi.
Loks segir í frétt Morgunblaðsins að viðkomandi saksóknari hafi flutt að minnsta kosti tvö mál fyrir Landsrétti sem vörðuðu umferðarlagabrot á sama tíma og hún bar fyrir sig andlegum veikindum. Í báðum tilvikum voru sakborningar dæmdir til fangelsisvistar.