fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
Fréttir

19 ára sjálfboðaliði kom miður sín heim eftir sölu á Neyðarkallinum: „Hver eru skilaboðin frá þessu aumkunarverða fólki til næstu kynslóðar?“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 6. nóvember 2025 16:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjáröflun Slysavarnafélagsins Landsbjargar með sölu á hinum árlega Neyðarkalli stendur nú sem hæst. Sjálfboðaliðar félagsins standa við hinar ýmsu verslunarmiðstöðvar víðs vegar um landið að selja karlinn, enda ein stærsta fjáröflun félagsins.

Í ár stendur Neyðarkallinn nær hjarta sjálfboðaliðana en nokkru sinni áður því fyrir ári lést Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson, formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Sigurður lést 3. nóvember í slysi sem varð á æfingu í straumvatnsbjörgun í og við Tungufljót. Sigurður var nýorðinn 36 ára.

Neyðarkallinn í ár heiðrar minningu Sigurðar þar sem kallinn er straumvatnsbjörgunarmaður. Neyðarkallinn í ár er einnig í fyrsta sinn með dökkan húðlit enda var Sigurður af indverskum uppruna.

Ingvar Jónsson, markþjálfi og eigandi Profectus, greinir frá því að 19 ára dóttir hans sem hefur verið meðlimur í björgunarsveit í tvö ár hafi komið miður sín heim í gær eftir að hafa staðið við að selja Neyðarkallinn. Ástæðan var endurteknar niðrandi athugasemdir um húðlit Neyðarkallsins.

„Ég hélt við værum komin lengra en þetta!“ segir Ingvar í færslu á Facebook þar sem hann greinir frá atvikinu. Segir hann dóttur sína hafa staðið í fjáröfluninni undanfarna daga.

„Þessir fjáröflunardagar hafa alltaf verið tilhlökkunarefni hjá henni þar sem hún er mjög virk í því frábæra og óeigingjarna starfi sem Landsbjörg stendur fyrir. Hún er virkilega stolt björgunarsveitarkona — fullgildur meðlimur eftir tveggja ára markvissa þjálfun.

En þegar hún kom heim í gær var hún miður sín eftir að hafa ítrekað þurft að hlusta á niðrandi athugasemdir — frá fullorðnu fólki — um húðlit neyðarkallsins í ár.“

Segir Ingvar að hann og kona hans hafi varla trúað því sem dóttirin lýsti.

„Að fullorðið fólk – bæði karlar og konur – tókst að niðurlægja sjálft sig með þeim hætti sem raun bar vitni – með fúkyrðum og niðrandi orðræðu opinberaði það rasisma sinn með skammarlegum hætti. Neyðarkallinn í ár er dökkur á hörund og til heiðurs félaga Landsbjargar af indverskum uppruna sem lést í hræðilegu slysi við þjálfun í straumvatnsbjörgun.

Ég spyr – erum við virkilega á þeim stað að 19 ára sjálfboðaliði sem væri reiðubúin að fórna flestu til að koma þessu sama fólki til bjargar þurfi að upplifa slíka óvild? Hver eru skilaboðin frá þessu aumkunarverða fólki til næstu kynslóðar ef það telur þessháttar fordóma í lagi? Og þegar neyðin kallar — skiptir uppruni eða húðlitur máli? Ég velti fyrir mér ef þetta sama fólk lendir í aðstæðum þar sem líf þeirra væri í hættu – ætli það myndi afþakka björgun frá öðrum en hreinræktuðum Íslending?“

Ingvar segir að það sem sameini alla meðlimi Slysavarnafélagsins Landsbjargar er manngæska og fórnfýsi. Allir starfi þeir sem sjálfboðaliðar og bregðist ávallt við af góðvild og umhyggju fyrir öðrum, óháð því hvert fólk á rætur sínar að rekja eða hver húðlitur þeirra er.

„Mig langar því að hvetja alla — sérstaklega í ár — þegar sjálfboðaliðar þurfa ítrekað að standa í skugga hreinræktaðs rasisma fátækra sála — að styðja við Landsbjörg. Í ár tel ég enn mikilvægara að kaupa Neyðarkallinn — því við erum ekki bara að styðja við þetta frábæra starf — heldur einnig að standa saman gegn fordómum — ekki bara í orðum heldur einnig í verki.“

Sala Neyðarkallsins fer fram dagana 5. – 9. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“
Fréttir
Í gær

Óhugnanleg líkamsárás við Kringluna í dag – Árásaraðilinn á grunnskólaaldri

Óhugnanleg líkamsárás við Kringluna í dag – Árásaraðilinn á grunnskólaaldri
Fréttir
Í gær

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka
Fréttir
Í gær

Ákærður nauðgari ætlaði úr landi

Ákærður nauðgari ætlaði úr landi
Fréttir
Í gær

Mamdani verður borgarstjóri New York – Hélt eldræðu eftir sigurinn og skaut á Trump

Mamdani verður borgarstjóri New York – Hélt eldræðu eftir sigurinn og skaut á Trump
Fréttir
Í gær

Lögreglan vildi fá að hlera hús í Reykjavík vegna gruns um skipulagða vændisstarfsemi

Lögreglan vildi fá að hlera hús í Reykjavík vegna gruns um skipulagða vændisstarfsemi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakfelldur fyrir hótanir og líkamsárás inni í varahlutaverslun

Sakfelldur fyrir hótanir og líkamsárás inni í varahlutaverslun