fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Fréttir

Gestur áhyggjufullur: Gæti reynst ástvinum hreinasta martröð

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gestur Pálsson barnalæknir segist óttast að breytingar sem á að gera á hjúkrunarheimilinu Sóltúni muni reynast ástvinum hrein martröð.

Þetta segir Gestur í opnu bréfi til Maríu Rutar Kristinsdóttur, þingmanns Viðreisnar, en hún skrifaði grein í Morgunblaðið á dögunum sem bar yfirskriftina Ofbeldislaust ævikvöld. Minnti María á þá mikilvægu staðreynd að öll berum við ábyrgð á ofbeldi gegn öldruðu fólk í samfélaginu, mikilvægt sé að hafa augun opin fyrir öllum birtingarmyndum ofbeldis og segja frá í stað þess að þegja.

„Þessi hugvekja þín er eins og töluð úr munni okkar, hóps fólks, sem eigum ástvini á hjúkrunarheimilinu Sóltúni,“ segir Gestur í grein sinni sem birtist á vef Vísis í morgun. Hann tekur fram að á Sóltúni er gott að vera, þar er vel hugsað um íbúa og umhverfið friðsælt.

Óveðursský hrannast upp

„Að undanförnu hafa óveðursskýin þó hrannast upp hvað Sóltún varðar og er nú svo komið að við höfum miklar áhyggjur af velsæld íbúanna í fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum á hjúkrunarheimilinu. Um meiriháttar framkvæmdir er að ræða, sem felast m.a. í að byggð verður hæð ofan á húsið, 2 álmur lengdar, nýr skáli byggður við húsið og einnig ætlunin að endurbæta innri kerfi þess. Með þessum breytingum mun hjúkrunarrýmum fjölga úr 92 í 159 og húsnæðið stækkað um 3500 fermetra,“ segir Gestur en gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar muni taka að minnsta kosti tvö ár í framkvæmd.

„Er það að okkar mati galin hugmynd að ætla íbúunum að búa í húsinu allan tímann meðan á framkvæmdum stendur, enda var það upphaflega ekki ætlunin. Þessar framkvæmdir og óþægindin sem þeim munu fylgja eru í hrópandi mótsögn við “gildi” Sóltúns, sem blasa við á vegg í anddyrinu: SJÁLFRÆÐI – VIRÐING – UMHYGGJA – VELLÍÐAN. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru án nokkurs samráðs við íbúana og líkast til mun enginn þeirra lifa þessar framkvæmdir af en á Sóltúni látast u.þ.b 40 vistmenn á ári hverju.“

Gestur segir að breytingarnar muni hafa í för með sér verulegt rask og ónæði „sem við óttumst að muni reynast ástvinum okkar, sem eru aldraðir og lasburða, margir heilabilaðir og sumir komnir að lífslokum, hrein martröð. Við þessar aðstæður munu þessir einstaklingar og aðstandendur þeirra ganga í gegnum sínar síðustu og viðkvæmustu stundir, inni á byggingarsvæði. Væntanlega munu þeir ekki eiga “ofbeldislaust ævikvöld”.“

Svekktur út í Ingu Sæland

Gestur segir að það hafi komið á óvart þegar fréttir bárust af því í sumar að Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefði tekið af skarið, þrátt fyrir mótmæli, og tekið fyrstu skóflustunguna að áðurnefndum byggingarframkvæmdum.

„Þessi athöfn átti sér stað án þess að á henni væri á nokkurn hátt vakin athygli fyrr en eftir á og fór hún þess vegna fram hjá bæði íbúum á Sóltúni og aðstandendum þeirra. Væntanlega hefur ráðherrann ekki gert sér grein fyrir þeim ógöngum, sem hún kemur öldruðum hjúkrunarsjúklingum, mörgum lasburða og heilabiluðum, á Sóltúni í með þessum gjörningi. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að þessi sami ráðherra hyggst beita sér fyrir löggildingu áðurnefnds samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi, sem á sama tíma er nú ætlunin að brjóta á íbúum hjúkrunarheimilisins Sóltúns.“

Gestur segir að lokum að mikill skortur sé á hjúkrunarrýmum hér á landi og þeim þurfi að fjölga. Það sé þó ekki sama hvernig það gert.

„Af því sem áður er rakið virðist ljóst, að til stendur að brjóta mannréttindi á íbúum á hjúkrunarheimilinu Sóltúni með því að gera þeim, án nokkurs samráðs, að búa í húsnæði sem undirgengst gagngerar, 2ja ára byggingarframkvæmdir. Þessi niðurstaða er ekki einungis okkar heldur studd lögfræðilegu áliti. Slík framkoma og meðferð á öldruðum hjúkrunarsjúklingum flokkast væntanlega undir “ofbeldi gegn öldruðum”. Ljóst er að álíka framganga yrði aldrei liðin, ef um fjölbýlishús úti í bæ væri að ræða nema með samþykki íbúa, enda yrði “venjulegu fólki” aldrei ætlað að búa við slíkar aðstæður.“

Grein Gests á Vísi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Svívirðileg brot gegn 12 ára stúlku

Svívirðileg brot gegn 12 ára stúlku
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fullyrðir að slys á Vestfjörðum hafi verið sviðsett til að hylma yfir morð – „Með duttlungum skal land byggja“

Fullyrðir að slys á Vestfjörðum hafi verið sviðsett til að hylma yfir morð – „Með duttlungum skal land byggja“
Fréttir
Í gær

Hannes ákærður fyrir kynferðisbrot í Múlaborg

Hannes ákærður fyrir kynferðisbrot í Múlaborg
Fréttir
Í gær

„Það er brýnt að við hættum að tala um kynlífsverkafólk og byrjum að tala við það“

„Það er brýnt að við hættum að tala um kynlífsverkafólk og byrjum að tala við það“