

Snorri Másson varaformaður Miðflokksins gagnrýndi Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur fjölmiðlakonu og sagði hana halda því fram að auknar vinsældir flokksins í könnunum stöfuðu af því að ungir karlmenn flykktust að flokknum af því þeir væru svo illa læsir. Fleiri Miðflokksmenn létu Þóru Kristínu heyra það sem hefur nú svarað gagnrýninni og segist ekki hafa verið að beina spjótum sínum að Miðflokknum sérstaklega. Hún segist vera sammála Snorra um sumt en ungt fólk eigi betra skilið en stjórnmálamann eins og hann.
„Það er alltaf hressandi að vakna til nýs dags og uppgötva að maður hefur eignast þúsund splunkunýja óvini í Miðflokknum. Nú þegar hausinn á mér ferðast um netheima á fati og fer með sömu möntruna aftur og aftur sem miðflokksmenn froðufella yfir, þá vil ég benda á að ég var nú reyndar ekki bara að tala um miðflokkinn heldur alla miðflokka heimsins og afhverju ungt fólk er að hneigjast til einangrunarhyggju í alþjóðamálum, fordóma gegn hinsegin fólki og afneitunar á loftslagsvísindi.“
Þóra Kristín segist í pistlinum hafa verið að setja læsi í samhengi við vaxandi erfiðleika fjölmiðla á Íslandi þar sem færra fólk starfi og því séu færri sem geti greint upplýsingar og sett þær í samhengi:
„Nú geta stjórnmálamenn makað krókinn með allskonar fullyrðingum og sannleikurinn hittir þá aldrei fyrir. Það er bara lítið brot eftir af hefðbundinni fjölmiðlun. Við hlutverki þeirra eru teknir karlarnir í kassanum, sem básúna skoðanir sínar, einir og ótruflaðir undir drynjandi lófataki í bergmálshellinum. Við fáum sjaldnast heildarmyndina, bara glamur, gífuryrði og breiðar fyrirsagnir. Þetta litar öll stjórnmálin og alla umræðuna en gerir popúlistum sérlega auðvelt fyrir og þeim sem vilja gera út á fordóma og hræðslu.“
Þóra Kristín segist sammála Snorra Mássyni um það að ekki megi gleyma efnahagslegum áskorunum sem ungt fólk standi frammi fyrir. Ungt fólk hafi samt áður staðið frammi fyrir áskorunum án þess að ráðast á fólk á flótta og kenna því um allt sem miður faru, grafa undan tilveru og sjálfsmynd hinsegin fólks og hatast út í loftslagsvísindi.
Þóra Kristín segir alveg pláss fyrir hvassa gagnrýni án þess að hafa rangt við en þá standi eftir samkenndin eða skortur á henni sem Písa kannanir hafi leitt í ljós og hún sé kannski alvarlegust. Hún segist sammála Snorra og hans skoðanabræðrum að hluta um það sem í daglegu tali hefur verið kallað „vók“ en ungt fólk eigi betra skilið en hann:
„Harðasta vókið var svo sannarlega orðið óþolandi enda var samkenndin þar líka lítil og aðallega refsigleði. Unga fólkið á samt skilið betri fyrirmyndir ef við keflinu taka dæmigerð hvít, heterónormatív karlkyns fórnarlömb eins og Snorri sem ráðast á þá sem standa höllum fæti en kalla svo í sérsveitina til að bía sér í svefn þegar þeim er svarað í sömu mynt.“