

Íslenskur lögmaður hefur undanfarna viku setið í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði vegna gruns um aðild að skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Umrætt mál tengist rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á skipulagðri glæpastarfsemi, ólöglegum innflutningi á fólki, sem og peningaþvætti.
Í sumar réðst lögreglan nyrðra í aðgerðir víða um landið vegna rannsóknar á brotastarfsemi en aðgerðirnar náðu til höfuðborgarinnar, Kópavogs, staða á Vesturlandi sem og Raufarhafnar. Fjöldi einstaklinga voru handteknir og þá var fíkniefnaframleiðsla upprætt.
Allnokkrir sátu í gæsluvarðhaldi vegna málsins en í ágústlok voru fjórir einstaklingar sendir til Albaníu eftir tveggja mánaða varðhald. Lögmaðurinn tengist rannsókn þessara mála.
Lögmaðurinn er ekki nafngreindur en í frétt RÚV kemur fram að auk verjendastarfa þá hafi maðurinn verið talsmaður fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.