

Atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um að leggja stjórnvaldssekt á ónefndan bónda fyrir brot á lögum um velferð dýra og reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár. Snerist umrætt brot um velferð einnar tiltekinnar kindar en lagt var fyrir bóndann að kalla til dýralækni eða aflífa kindina. Fullyrti bóndinn í kjölfarið að hann hefði aflífað kindina en vildi ekki upplýsa um hvenær nákvæmlega hann gerði það en kindin er enn skráð lifandi.
Sektin var lögð á í apríl á síðasta ári en bóndinn kærði ákvörðunina í maí sama ár.
Upphaf málsins má rekja til þess að starfsmenn MAST fóru í eftirlitsheimsókn á bæ bóndans í júní 2023. Sáu þær þá eina á úti á túni sem átti erfitt með að ganga, standa upp og fylgja hjörðinni. Hún var hölt bæði á fram og afturfótum, frekar holdgrönn og þjáðist bersýnilega, samkvæmt eftirlitsskýrslu. Var bóndanum veittur tveggja vikna frestur til að annaðhvort kalla til dýralækni vegna ærinnar eða aflífa hana. Bóndinn gerði engar formlegar athugasemdir við skýrsluna.
Þremur dögum eftir að fresturinn rann út sendi bóndinn erindi til MAST um að ærin væri 10 vetra og hafi borið tvö lömb. Því var svarað með því að krafa stofnunarinnar væri óbreytt. Tveimur dögum áður en erindi bóndans var svarað var farið í aðra eftirlitsheimsókn á bæinn og þá fannst ærin ekki og ekki var vitað um afdrif hennar. Taldi MAST um alvarlegt frávik að ræða en bóndinn gerði ekki athugasemd við skýrslu um þessa heimsókn innan uppgefins frests en viku eftir að hann rann út sendi bóndinn erindi til MAST þar sem hann fullyrti að ærin væri með liðabólgu en gæti vel farið um,
Það næsta sem gerðist í málinu var að í september 2023 boðaði MAST að 300.000 króna stjórnvaldssekt yrði lögð á bóndann þar sem hann hefði brotið áðurnefnd lög og reglugerðir og hefði ekki brugðist við fyrirmælum stofnunarinnar um leita dýralæknis með kindina eða aflífa hana. Í stað þess hafi hún verið send á afrétt þrátt fyrir að vera hölt á öllum fótum og kvalin.
Bóndinn andmælti sektinni og sagði að þvert á móti væri búið að aflífa kindina.
Ekkert virðist síðan hafa gerst í málinu fyrr en í febrúar 2024 en þá fór MAST fram á staðfestingu á því að ærin væri dauð og hvenær hún hafi verið aflífuð. Bóndinn svaraði samdægurs og sagðist sjálfur hafa aflífað hana áður en bréfið þar sem sektin var boðuð var send til hans. MAST svaraði að bragði að ærin væri enn skráð lifandi í gagnagrunninn „Fjárvís“ og að engin staðfesting hefði verið send um meðhöndlun eða aflífun. MAST hefði enn fremur aflað gagna um að ærin hefði ekki verið send til slátrunar. Var því farið fram á að upplýsingar um það hvenær nákvæmlega ærin hefði verið aflífuð.
Bóndinn svaraði viku síðar og sagðist vera löngu búinn að aflífa kindina en hvenær hann hafi gert það kæmi stofnunni ekkert við.
Í bréfi sem MAST sendi bóndanum í apríl 2024 kom fram að aðalatriðið væri hvenær ærin hafi verið aflífuð en ekki að hún hafi verið drepin á endanum. Sannað þætti að hann hefði dregið að fara eftir fyrirmælum stofnunarinnar frá júní 2023 að kalla til dýralækni eða aflífa ána innan tveggja vikna. Var í kjölfarið hin 300.000 króna sekt lögð á bóndann og hann kærði þá ákvörðun til ráðuneytisins.
Í kærunni stóð bóndinn fast við fullyrðingar sínar um að hann hefði aflífað kindina áður en bréfið, þar sem sektin var boðuð, var sent til hans í september 2023. Því væri ekki tilefni lengur til að sekta hann og ekki væri heldur tilefni til þess þótt hann hefði ekki skráð aflífunina. Auk þess væri 300.000 króna sekt mjög íþyngjandi fyrir hann þar sem hann hefði þá þegar verið sviptur vörslum nautgripa sinna og því nánast tekjulaus.
MAST svaraði kærunni meðal annars með því að stofnuninni hefði verið heimilt að sekta bóndann þar sem hann hefði ekki farið að fyrirmælum sumarið 2023 um að aflífa ána eða kalla til dýralækni eins fljótt og hægt væri.
Bóndinn sagði í athugasemd við svör MAST að það væri ekki rétt sem hefði komið fram í upphaflega bréfinu frá stofnuninni um sektina, í september 2023, að hann hefði sent kindina, halta og kvalda, á afrétt í stað þess að hlýða fyrirmælum stofnunarinnar. Þvert á móti hefði hann þá þegar verið búin að aflífa kindina en sektin hefði síðan verið lögð á hálfu ári eftir að hann hefði tilkynnt stofnuninni um að kindin hefði verið aflífuð.
Í niðurstöðu atvinnuvegaráðuneytisins segir að fyrir liggi skoðunarskýrsla MAST frá júní 2023 um að aflífa skuli kindina eða kalla til dýralækni. Þau fyrirmæli hafi síðan verið ítrekuð í skoðunarskýrslu í júlí. Engin gögn liggi fyrir sem sanni að ærin hafi sannarlega verið aflífuð í júlí 2023.
Ærin sé enn skráð lifandi og engin gögn hafi borist MAST um aflífun hennar eða meðhöndlun.
Gögn málsins sýni fram á að bóndinn hafi ekki brugðist við tilmælum stofnunarinnar og þar með ekki tryggt kindinni viðeigandi og nauðsynlega meðferð í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra og viðeigandi reglugerða um velferð dýra og velferð sauðfjár og geitfjár.
Hin 300.000 króna sekt sem lögð var á bóndann stendur því óhögguð.