

Vitni að blóðbaðinu í járnbrautarlest í Cambridge í Bretlandi í gær, þar sem tíu farþegar voru fluttir á sjúkrahús eftir hnífaárásir, segir að fólk hafi traðkað hvert á öðru er það reyndi að forða sér í skjól undan hnífaárásarmönnunum, og sum hafi falið sig inni á salerni.
Maður að nafni Gavin segir í viðtali við Sky News að hann hafi heyrt einhvern hrópa: „Þeir eru með hníf, ég var stunginn“.
Gavin segist hafa séð „ótrúlega blóðugt“ fólk og að lögregla hafi hrópað „Niður með ykkur, niður með ykkur!“ á meðan farþegar voru að berjast við að komast út úr lestinni.
Fréttakona Sky News á vettvangi segir aðkoman hafi verið hryllileg. Gavin segir: „Vopnuð lögregla var að benda á grunaðan þegar við fórum úr lestinni.“ – „Hann var með stóran hníf. Þeir tóku hann fastan. Ég held þeir hafi notað rafbyssu til að koma honum loksins niður.“
Lestin var á leiðinni frá Doncaster til London. Samkvæmt frétt Sky News tóku farþegar í neyðarhemla sem leiddi til þess að lestin stöðvaði á stöðinni í Huntingdon, sem var ekki á áætlun, og þar komust vopnaðir lögreglumenn um borð.
Sem fyrr segir voru tíu flutt á sjúkrahús eftir hnífaárásirnar. Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins. Ekkert liggur fyrir um tilganginn að baki árásunum ennþá og nöfn handteknu mannanna hafa ekki verið gefin upp. Breska hryðjuverkalögreglan kemur að rannsókn málsins.
Sjá nánar hér.